Innlent

Ráðist á Matthías Mána á Litla-Hrauni

Stígur Helgason skrifar
Fangarnir voru í útivist þegar árásin var framin.
Fangarnir voru í útivist þegar árásin var framin.

Refsifanginn Matthías Máni Erlingsson, sem var í fréttum um jólin í fyrra þegar hann strauk af Litla-Hrauni, var fluttur á sjúkrahús á Selfossi í gær eftir að hafa orðið fyrir árás tveggja samfanga sinna í útivistartíma.



Atvikið varð á öðrum tímanum eftir hádegi og náðist á myndband. Árásarmennirnir munu hafa greitt Matthíasi ótal högg í andlit og höfuð og meðal annars notað lás til verksins. Matthías missti meðvitund, skarst í andliti og var fluttur alblóðugur á spítala. Hann fór aftur á Litla-Hraun síðar um daginn.

Annar árásarmannanna var Baldur Kolbeinsson, tæplega 23 ára síbrotamaður sem hefur hlotið fjölda refsidóma frá því að hann var tæplega sautján ára. Hinn á styttri refsiferil að baki. Þeir voru báðir færðir í einangrun strax eftir árásina eins og reglur gera ráð fyrir. „Það verður svo metið í kjölfarið hvort ástæða þykir til að vista þá á öryggisgangi,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri.



Baldur og Matthías sæta nú báðir ákærum fyrir að hafa, hvor í sínu lagi með einnar viku millibili í mars síðastliðnum, ráðist á fangaverði á Litla-Hrauni; Matthías einn en Baldur þrjá. Aðalmeðferð í máli Baldurs fer fram í dag í Héraðsdómi Suðurlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×