Enski boltinn

Bosníumaður í liði Roma er númer eitt á listanum hjá Mourinho

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Miralem Pjanic á Old Trafford?
Miralem Pjanic á Old Trafford? vísir/getty
Miralem Pjanic, leikmaður Roma á Ítalíu, er númer eitt á innkaupalistanum hjá José Mourinho, knattspyrnustjóra Manchester United, samkvæmt spænska íþróttablaðinu El Mundo Deportivo.

Þessi 26 ára gamli Bosníumaður hefur spilað vel fyrir Roma síðan hann kom til liðsins frá Lyon 2011 en hann hefur skorað 30 mörk af miðjunni í 185 leikjum í öllum keppnum.

Barcelona, Chelsea, Juventus og Paris Saint-Germain eru öll sögð áhugasöm um leikmanninn og ætla að reyna að kaupa hann frá Róm í sumar en Mourinho vonast til að geta sannfært hann um að koma á Old Trafford.

Ítalska íþróttablaðið Gazzetta dello Sport heldur því fram að Roma hafi engan áhuga á að selja leikstjórnandann sinn og fari hann verður það fyrir fúlgur fjár.

Pjanic á 68 leiki að baki fyrir landslið Bosníu og Hersegóvínu en hann var lykilmaður þess á HM 2014 í Brasilíu.

Fjöldinn allur af leikmönnum er orðaður við Manchester United þessa dagana, þar á meðal Zlatan Ibrahimovic sem er búinn að staðfesta að hann fer ekki heim í sænsku úrvalsdeildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×