Enski boltinn

Mourinho lofar því að fara ekki í persónulegt stríð við Guardiola

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
José Mourinho og Pep Guardiola.
José Mourinho og Pep Guardiola. Vísir/AFP
José Mourinho, nýr knattspyrnustjóri Manchester United, fær vissulegt gott tækifæri til að rífa upp gömul sár næsta vetur þegar Pep Guardiola mætir til leiks sem nýr knattspyrnustjóri Manchester City.

Úlfúð þeirra á Spáni, þegar José Mourinho stýrði Real Madrid og Pep Guardiola var með lið Barcelona, er flestu knattspyrnuáhugafólki í fersku minni og margir þeir sömu búast við sjónarspili þegar stjórarnir eru farnir að stýra liðum í sömu borg.

José Mourinho hefur riðið á vaðið og tjáð sig um væntanleg samskipti sín og Pep Guardiola. Hann hefur lofað því að fara ekki í persónulegt stríð við Guardiola og það er ástæða fyrir því.

„Ég get nú ekki haldið fram sakleysi mínu því í tvö ár voru við í deild þar sem annaðhvort ég eða hann vorum að fara verða meistarar," sagði José Mourinho í Lisabon í Portúgal þar sem hann var að halda fyrirlestur. Guardian segir frá.

„Við slíkar kringumstæður þá ganga svona persónuleg stríð upp því þau geta haft áhrif. Svo er hinsvegar ekki staða mála í ensku úrvalsdeildinni," sagði Mourinho og bætti við:

„Ef ég einbeiti mér að honum og hann að mér þá mun bara eitthvað annað lið við ensku deildina," sagði Mourinho.

Mourinho var ráðinn knattspyrnustjóri Manchester United í síðustu viku en það hefur verið vitað síðan í febrúarmánuði að Pep Guardiola taki við liði Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×