Enski boltinn

Dele Alli fær nýjan samning í annað sinn á árinu

Dele Alli og Mauricio Pochettino kátir að krota.
Dele Alli og Mauricio Pochettino kátir að krota. mynd/spurs
Dele Alli, miðjumaður Tottenham og enska landsliðsins, er búinn að gera nýjan samning við enska úrvalsdeildarliðið en hann er nú samningsbundinn Tottenham til ársins 2022.

Frá þessu er greint á heimasíðu Tottenham en þessi tvítugi miðjumaður var keyptur til Tottenham í janúar í fyrra frá MK Dons. Hann spilaði sína fyrstu leiktíð með Lundúnarliðinu á síðasta tímabili og fór á kostum.

Dele skoraði tíu mörk og lagði upp ellefu í 46 leikjum í öllum keppnum og var valinn í enska landsliðið sem tapaði fyrir Íslandi í 16 liða úrslitum á EM 2016 í Frakklandi í sumar.

Hann var vainn besti ungi leikmaður síðustu leiktíðar og var í liði ársins í ensku úrvalsdeildinni en hann átti stóran þátt í því að Tottenham komst aftur í Meistaradeildina eftir fimm ára fjarveru.

Þetta er í annað sinn á árinu sem Dele fær nýjan samning hjá Tottenham en í janúar hækkuðu laun hans úr tíu þúsund pundum á viku í 25.000 samkvæmt fréttum enskra miðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×