Enski boltinn

Klopp vill Mané eftir að missa af Götze

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sadio Mané hefur spilað vel fyrir Southampton síðustu tvö ár.
Sadio Mané hefur spilað vel fyrir Southampton síðustu tvö ár. vísir/getty
Eftir að ná ekki að landa Mario Götze frá Bayern München vill Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, nú fá Senegalann Sadio Mané til liðsins í sumar.

Þetta kemur fram á vef Guardian en Mané verður eftirsóttur í sumar. Manchester United hefur viljað fá hann í sínar raðir í nokkra mánuði og þá er Tottenham einnig sagt áhugsamt.

Þrátt fyrir að vera tekinn úr liðinu hjá Ronald Koeman í byrjun árs og skora ekki mark í fjóra mánuði endaði Mané samt sem markahæsti leikmaður Dýrlinganna í öllum keppnum með 15 mörk. Hann er búinn að skora 21 deildarmark á síðustu tveimur leiktíðum eftir að hann kom til Southampton frá Red Bull Salzburg.

Klopp er að leita að framliggjandi miðjumanni eða kantmanni sem ræður við orkumikinn leikstíl Liverpool-liðsins og þess vegna var hann á eftir Götze. Liverpool bauð Bayern 20 milljónir punda fyrir þýska landsliðsmaninn.

Liverpool var vongott um að fá Götze áður en skipti um umboðsmann og lýsti því yfir í síðustu viku að hann ætlar að berjast fyrir sæti sínu hjá Bayern undir stjórn nýs þjálfara, Carlo Ancelotti.

Mané mun væntanlega kosta mun meira en 20 milljónir punda en hann er með samning hjá Southampton til 2018 á meðan Götze verður samningslaus næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×