Enski boltinn

Sjö ára strákur sótti um stjórastöðuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ungur stuðningsmaður Inverness Caledonian Thistle.
Ungur stuðningsmaður Inverness Caledonian Thistle. Vísir/Getty
Inverness Caledonian Thistle er ekki þekktasta fótboltalið Skotlands en liðið var að klára sitt þriðja tímabil í röð í skosku úrvalsdeildinni en um leið að missa knattspyrnustjóra sinn til þriggja ára.

John Hughes gerði Inverness-liðið að skoskum bikarmeisturum í fyrra sem var fyrsti stóri titill félagsins. Liðið endaði hinsvegar bara í 7. sæti á nýloknu tímabili eða fjórum sætum neðar en árið á undan.

Hinn 51 árs gamli John Hughes var ósáttur með að fá ekki meiri pening fyrir nýja leikmenn og hann ákvað að hætta eftir tímabilið. Félagið er nú að leita sér að nýjum knattspyrnustjóra.

Ein umsóknin hefur vakið mesta athygli bæði innan Inverness Caledonian Thistle félagsins sem og í breskum fjölmiðlum. Hún kom frá hinum sjö ára gamla Ewen.

Ewen sendi stjórnarformanninum Kenny Cameron handskrifað bréf þar sem hann sóttist eftir því að setjast í knattspyrnustjórastólinn.

Hann gekk svo langt að segja að hann gæti beðið skólastjórann sinn um að fá að fara snemma úr skólanum á leikdögum. „Ég er viss um að það verði ekkert vandamál svo framarlega sem leikmenn liðsins hjálpi mér með heimavinnuna," skrifaði Ewen.

Forráðamenn Inverness Caledonian Thistle höfðu mjög gaman af bréfinu og ákváðu að birta það á heimasíðu félagsins undir skilaboðunum. „Við teljum að Ewan gæti komið til greina í starfið en hvað finnst ykkur?"

Þetta er samt ekki í fyrsta sinn sem ungir knattspyrnuáhugamenn hafa það mikið sjálfstraust að þeir sækja um knattspyrnustjórastöðuna hjá sínu félagi og þetta alltaf jafnsætt og skemmtilegt.

Hér fyrir neðan má sjá bréfið eins og það var birt á Twitter-síðu Inverness Caledonian Thistle liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×