Fótbolti

Hallbera um Söru: „Langbesti leikmaður sem Ísland hefur átt“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hallbera Guðný Gísladóttir segir að Sara Björk Gunnarsdóttir sé besti leikmaður sem Ísland hefur átt. Sara Björk spilar til úrslita í Meistaradeildinni á morgun er Wolfsburg mætir Lyon.

„Hún er búin að setja ansi mörg mörk sem afturliggjandi miðjumaður. Það er auðvitað frábært að fylgjast með henni,” sagði Hallbera Guðný Gísladóttir, leikmaður Vals og samherji Söru í landsliðinu.

„Þetta er hennar draumur og að vera fara að horfa á hana spila úrslitaleik er auðvitað frábært. Wolfsburg er nánast bara þýska landsliðið og svo fylla þær upp í með topp leikmönnum frá öðrum liðum.”

Wolfsburg er með ógnasterkt lið. Liðið hefur unnið þýsku deildina og bikarinn og getur því tekið þrennuna vinni liðið Lyon á morgun.

„Þetta er gífurlega sterkt lið en á móti er franska liðið ógnasterkt sömuleiðis. Þetta verður hörkuleikur.”

„Ég ætla auðvitað að segja að Wolfsburg taki þennan leik. Þær eru búnar að taka deildina og bikarinn. Það væri stórkostlegt að taka þrennuna og vera með íslenska fótboltakonu fremsta í farabroddi," en hefur Sara einhverntímann spilað betur?

„Ég held ekki. Ég held að hún sé að toppa og á hárréttum tíma. Hún er búinn að leggja hart að sér og að vera kominn þangað. Hún er lang besti leikmaður sem Ísland hefur átt.”

Leikurinn hefst klukkan 16.00 á morgun og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×