Körfubolti

Stelpurnar steinlágu fyrir Portúgal í fyrsta leik

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Birna Valgerður Benónýsdóttir.
Birna Valgerður Benónýsdóttir. Vísir/Andri
Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta skipað leikmönnum 18 ára og yngri hóf leik í B-deild Evrópumótsins í dag en mótið fer fram í Austurríki. Andstæðingarnir voru stöllur þeirra frá Portúgal en hin liðin í riðlinum eru Kýpur, Georgía, Rúmenía og Finnland.

Skemmst er frá því að segja að portúgölsku stelpurnar höfðu nokkuð öruggan sigur en leiknum lauk með 29 stiga sigri Portúgals, 51-80.

Portúgal lagði grunninn að sigrinum með góðum fyrri hálfleik en staðan í hálfleik var 20-40, Portúgal í vil.

Birna Benónýsdóttir skilaði góðu framlagi af bekknum og var atkvæðamest í íslenska liðinu með 12 stig, 6 fráköst og 2 stoðsendingar. Anna Svansdóttir var næststigahæst með 10 stig.

Á morgun mætir íslenska liðið Georgíu en þær leika sinn fyrsta leik í kvöld þar sem þær mæta Rúmeníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×