Erlent

Bandaríkin ætla að viðurkenna yfirráð Ísraels yfir Gólanhæðum

Kjartan Kjartansson skrifar
Ísraelskir skriðdrekir á Gólanhæðum. Ísraelar lögðu undir sig tvo þriðju hluta svæðisins í sex daga stríðinu.
Ísraelskir skriðdrekir á Gólanhæðum. Ísraelar lögðu undir sig tvo þriðju hluta svæðisins í sex daga stríðinu. Vísir/EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti tísti í dag að Bandaríkin ætluðu sér að viðurkenna yfirráð Ísraels yfir Gólanhæðum. Ísraelar innlimuðu Gólanhæðir frá Sýrlandi í sex daga stríðinu árið 1967. Ríkisstjórnir heims hafa ekki viðurkennt yfirráð Ísraela yfir landssvæðinu og Sýrlendingar hafa ítrekað gert kröfu um að fá svæðið til baka.

Í tístinu segir Trump tíma til kominn að Bandaríkin viðurkenni að fullu að Ísrael hafi forráð yfir Gólanhæðum. Fullyrðir hann að Gólanhæðir leiki lykilhlutverk fyrir öryggi Ísraelsríkis og stöðugleika í heimshlutanum.

Reuters-fréttastofan segir að fylgi ríkisstjórn Trump orðum hans eftir yrði það meiriháttar breyting frá stefnu Bandaríkjanna. Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hefur þrýst á Bandaríkjastjórn að viðurkenna tilkall Ísraels til Gólanhæða.

Netanjahú er væntanlegur í heimsókn til Washington-borgar í næstu viku. Hann stendur jafnframt frammi fyrir kosningum heima fyrir 9. apríl sem gætu reynst honum erfiðar í ljósi spillingarmála sem hann hefur verið bendlaður við.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Trump veitir Ísrael meiriháttar pólitíska sigra. Ákvörðun Trump um að færa sendiráð Bandaríkjanna frá Tel Aviv til Jerúsalem, sem bæði Ísraelar og Palestínumenn gera tilkall, til olli mikilli úlfúð. Fjöldi ríkja, þar á meðal Íslands, samþykktu ályktun gegn flutningum í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×