Enski boltinn

Allir miðjumenn Liverpool eftirbátar Jorginho

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Milner, Jordan Henderson og Georginio Wijnaldum.
James Milner, Jordan Henderson og Georginio Wijnaldum. Getty/John Powell
Eftir þriðja markalausa jafnteflið á stuttum tíma hefur komið upp umræða í enskum fjölmiðlum um bitleysi sóknarleiks Liverpool. Liðið vantar að því virðist meiri skapandi leikmann inn á miðjuna.

Andstæðingum Liverpool hefur tekist að loka vel svæðinu sem Mohamed Salah fær til að vinna með á hægri kantinum og fyrir vikið hefur Egyptinn aðeins skorað eitt mark í síðustu sex leikjum.

Fjórir af þessum sex leikjum hafa endað með jafntefli og Liverpool liðið hefur aðeins skorað samtals tvö mörk í þessum fjórum jafnteflum frá og með 30. janúar.

Jamie Carragher, fyrrum leikmaður Liverpool, segir félagið enn ekki hafa fyllt í skarðið hans Philippe Coutinho sem félagið seldi til Barcelona fyrir rúmu ári síðan. Það má heyra skoðun hans hér fyrir neðan.





Tölfræðin segir líka sína sögu um skort á skapandi leikmönnum inn á miðju Liverpool liðsins. Squawka Football benti á það að allir miðjumenn Liverpool eru þannig eftirbátar Jorginho hjá Chelsea þegar kemur að því að búa til færi fyrir félaga sína.

Jorginho hefur þegar skapað tuttugu marktækifæri fyrir félaga sína í Chelsea en Georginio Wijnaldum og James Milner eru hæstir miðjumanna Liverpool með fimmtán sköpuð færi.





Hluti skýringarinnar er þó að báðir bakverðir Liverpool liðsins, þeir Trent Alexander-Arnold og Andrew Robertson, taka báðir mikinn þátt í sóknarleiknum og hafa báðir lagt upp mörg færi á tímabilinu. Sóknarlínan er líka að búa til færi fyrir hvern annan.

Staðreyndin er hins vegar sú að Liverpool liðið hefur tapað átta stigum í síðustu sex leikjum sínum eftir að hafa aðeins tapað 9 stigum samanlagt í fyrstu 23 leikjunum. Liðið hefur líka gefið talsvert eftir í markaskorun. Það eru eflaust margar ástæður en lítil sköpun af miðju liðsins stingur vissulega í augun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×