Dominique er 24 ára leikstjórnandi sem hefur leikið undanfarin tvö tímabil í Rapla í Eistlandi þar sem hann var með 13,3 stig, 5,8 stoðsendingar og 3,7 fráköst að meðaltali í leik.
Dominique átti mjög merkilegan háskólaferil þar sem hann lék í Kentucky háskólanum undir stjórn John Calipari.
Dominique Hawkins var byrjunarliðsmaður og fyrirliði Kentucky Wildcats liðsins. Með honum í liðinu voru meðal annars menn eins og Karl-Anthony Towns, Andrew Harrison og Willie Cauley-Stein en þeir voru allir valdir í NBA nýliðavalinu.
Karl-Anthony Towns er leikmaður Minnesota Timberwolves en hann var valinn fyrstur í nýliðavalinu 2015. Willie Cauley-Stein er svo nýbúinn að gera samning við Golden State Warriors.
Eftir háskólanám spilaði Dominique Hawkins í NBA sumardeildinni með Sacramento Kings þar sem hann var með 2,5 stig og 2,6 stoðsendingar að meðaltali í leik.
Í frétt á síðu Valsmanna kemur fram að nokkur NFL lið höfðu áhuga á að fá hann til reynslu eftir háskólanám en hann þykir afar liðtækur varnarbakvörður í ameríska fótboltanum.