Handbolti

Endurkoman hófst aðeins of seint

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarni Ófeigur skoraði sex mörk gegn Serbíu.
Bjarni Ófeigur skoraði sex mörk gegn Serbíu. mynd/hsí
Íslenska U-21 árs landsliðið í handbolta karla tapaði fyrir því serbneska, 22-24, í leik um 13. sætið á HM á Spáni í dag.

Leikurinn var jafn framan af en um miðbik fyrri hálfleiks tóku Serbar völdin, skoruðu fjögur mörk í röð og breyttu stöðunni úr 5-6 í 5-10.

Serbía skoraði svo fimm af síðustu sex mörkum fyrri hálfleiks og leiddi, 9-16, þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Serbar skoruðu fyrstu tvö mörkin í seinni hálfleik og náðu níu marka forskoti, 9-18.

Þegar níu mínútur voru eftir var Serbía með níu marka forystu, 14-23.

Íslenska liðið tók við sér undir lokin og vann síðustu níu mínúturnar 8-1. Það dugði þó skammt og Serbía fagnaði sigri, 22-24.

Bjarni Ófeigur Valdimarsson var markahæstur í íslenska liðinu með sex mörk. Hann gaf einnig fjórar stoðsendingar.

Jakob Martin Ásgeirsson skoraði fjögur mörk og þeir Gabríel Martinez Róbertsson og Elliði Snær Viðarsson sitt hvor þrjú mörkin.

Ísland endaði í 14. sæti á HM. Íslenska liðið vann þrjá leiki og tapaði fjórum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×