Fótbolti

Patrik fer til nýs félags eftir Belgíuleikinn

Sindri Sverrisson skrifar
Patrik Gunnarsson í 1-0 sigri Íslands á Svíþjóð í U21-landsleiknum síðasta föstudag.
Patrik Gunnarsson í 1-0 sigri Íslands á Svíþjóð í U21-landsleiknum síðasta föstudag. VÍSIR/DANÍEL

Patrik Gunnarsson, hinn 19 ára nýliði í íslenska A-landsliðshópnum sem nú er í Belgíu, hefur verið lánaður til danska knattspyrnufélagsins Viborg.

Patrik er leikmaður enska félagsins Brentford en kemur til Viborg að láni eftir Belgíudvölina. Hann var að láni hjá Southend United um skamman tíma áður en að hlé var gert á keppni vegna kórónuveirufaraldursins á síðustu leiktíð.

„Patrik er spennandi markvörður sem þrátt fyrir ungan aldur hefur fengið reynslu af því að spila á háu stigi. Hann er búinn að standa sig vel í sterku umhverfi í Brentford, og er búinn að ná að spila aðalliðsfótbolta í enska boltanum, auk þess að vera valinn í íslenska A-landsliðið. Hann passar vel inn hjá okkur og við teljum að hann muni styrkja okkur,“ sagði Jesper Fredberg, íþróttastjóri Viborg.

Patrik hefur varið mark U21-landsliðs Íslands en var valinn í A-landsliðið í fyrsta sinn í janúar, og sat þá á varamannabekknum í leikjum við Kanada og El Salvador. Hann kom inn í A-landsliðið eftir Englandsleikinn í stað Hannesar Þórs Halldórssonar sem fékk ekki leyfi hjá Val til að fara til Belgíu.


Tengdar fréttir

Sol Campbell fékk Patrik að láni í neyð

Markvörðurinn Patrik Gunnarsson, sem valinn var í síðasta verkefni íslenska A-landsliðsins, hefur verið lánaður til enska C-deildarfélagsins Southend United í aðeins sjö daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×