Fótbolti

Síðast fór mjög illa þegar landsliðið spilaði á afmælisdegi Gylfa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson í leiknum á móti Sviss fyrir tveimur árum eða þegar hann spilaði landsleik á afmælisdaginn sinn.
Gylfi Þór Sigurðsson í leiknum á móti Sviss fyrir tveimur árum eða þegar hann spilaði landsleik á afmælisdaginn sinn. Getty/TF-Images

Íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson heldur upp á 31 árs afmælið sitt í dag en hann fæddist 8. september 1989.

Gylfi Þór Sigurðsson hefur eytt ófáum afmælisdögum sínum með félögum sínum í íslenska landsliðinu og þar á meðal eru tveir þeir síðustu.

Hann er hins vegar ekki með liðinu út í Belgíu þar sem strákarnir mæta heimamönnum í Þjóðadeildinni í kvöld.

Gylfi valdi það frekar að æfa áfram með Everton liðinu og reyna að vinna sér sæti í byrjunarliðinu í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar um komandi helgi.

Íslenska landsliðið spilaði síðast á afmælisdegi Gylfa 8. september 2018 en við verðum að vona að það fari ekki jafn illa í kvöld og fór þá.

Leikurinn var á móti Sviss í Þjóðadeildinni og var um leið fyrsti leikur íslenska liðsins undir stjórn Svíans Erik Hamrén. Gylfi var fyrirliði íslenska liðsins í leiknum í forföllum Arons Einars Gunnarssonar.

Svisslendingar komust í 1-0 eftir þrettán mínútur og voru 2-0 yfir í hálfleik. Sviss vann leikinn á endanum 6-0 sem er enn langstærsta tap íslenska liðsins undir stjórn Erik Hamrén.

Nú er bara að vona að það gangi miklu betur hjá strákunum í Brussel í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×