Fótbolti

Jón Guðni: Vorum að gefa þeim of einföld mörk

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jón Guðni

Jón Guðni Fjóluson fékk tækifærið í miðverði íslenska liðsins gegn Belgum í kvöld. Jón Guðni – sem er án félags – hefur átt betri leiki en það var ærið verkefni að reyna stöðva besta landsliðs heims á heimavelli í kvöld.

„Við vissum fyrir leik að þetta yrði erfitt og mikill varnarleikur. Við erum samt að gefa þeim alltof einföld mörk að mínu mati. Þeir eru með flotta leikmenn í flestum stöðum og við vorum að gefa þeim leikmönnum alltof mikinn tíma til að athafna sig. Þá verður erfitt að verjast þeim í 90 mínútur.

„Ég bara sá það ekki nægilega vel. Ég reyndi að koma mér niður á línu fyrir Ömma [Kristinsson, markvörð] en kannski fór ég of neðarlega. Þarf að sjá þetta aftur,“ sagði Jón Guðni um jöfnunarmark Belga í kvöld.

„Ég veit ekki hvort þetta var erfiðara en ég átti von á. Við erum of langt frá þeim og gefum þeim of mikinn tíma út um allan völl. Það skilar sér svo í of mörgum mörkum á okkur í lokin. Það jákvæða er að þegar við þorðum að spila boltanum þá gátum við það alveg. Það var þó of sjaldan og menn voru oft of lengi á boltanum. Það voru þó einhverjir kaflar sem við spiluðum ágætlega,“ sagði Jón Guðni að lokum aðspurður hvort leikurinn hefði verið erfiðari en hann átti von á og hvað væri það jákvæðasta sem íslenska liðið gæti tekið út úr honum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×