Fótbolti

„Að sjálfsögðu er stóra markmiðið að komast í A-landsliðið“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alfons Sampsted í leik Íslands og Ítalíu í undankeppni EM U-21 árs landsliða fyrr í þessum mánuði.
Alfons Sampsted í leik Íslands og Ítalíu í undankeppni EM U-21 árs landsliða fyrr í þessum mánuði. vísir/vilhelm

Alfons Sampsted, leikmaður Noregsmeistara Bodø/Glimt, fer ekkert í felur með það að hann ætlar sér að festa sig í sessi í íslenska A-landsliðinu.

Alfons er lykilmaður í U-21 árs landsliðinu sem er komið á EM á næsta ári. Hann hefur leikið 30 leiki fyrir U-21 árs landsliðið og er leikjahæstur í sögu þess.

Hægri bakvörðurinn hefur einnig leikið tvo A-landsleiki, gegn Kanada og El Salvador í byrjun þessa árs, og vonast til að þeim fjölgi á næstu árum. Birkir Már Sævarsson hefur leikið í stöðu hægri bakvarðar hjá íslenska landsliðinu síðustu ár en er orðinn 36 ára og Guðlaugur Victor Pálsson, sem hefur einnig leyst þessa stöðu, er miðjumaður að upplagi.

„Ég væri að ljúga ef ég segði nei,“ sagði Alfons í samtali við Vísi, aðspurður hvort næsta skref á ferlinum væri ekki að komast í A-landsliðið.

„Að sjálfsögðu er stóra markmiðið að komast í A-landsliðið og spila þar. En það er ekki ég sem vel í liðið. Ég get stjórnað því hversu góður í fótbolta ég er, hversu mikið ég æfi og kynni mér leikkerfið. Ég get haft áhrif á þá þætti og ætla að gera þá eins vel og ég get þar til nýr landsliðsþjálfari velur næsta hóp. Hvort ég verði þar inni er ekki mitt að segja en ég ætla að verða klár.“

Hér fyrir neðan má sjá þegar Alfons ræðir um A-landsliðið og einnig U-21 árs landsliðið sem keppir á lokamóti EM í Ungverjalandi og Slóveníu á næsta ári.

Klippa: Alfons um A-landsliðið

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×