Fótbolti

Rauð spjöld og markaveisla í sigri Rangers á Celtic

Stefán Hirst Friðriksson skrifar
Nígeríumaðurinn, Sone Aluko fagnar marki sínu í dag.
Nígeríumaðurinn, Sone Aluko fagnar marki sínu í dag. nordic photos/ getty images
Rangers vann í dag 3-2 sigur á erkifjendum sínum Celtic í skosku deildinni á Ibrox, heimavelli Rangers. Leikurinn var eins og oft áður virkilega fjörugur, hart barist og fengu þrjú rauð spjöld að líta dagsins ljós.

Rígur liðanna er gríðarlegur og var leikurinn sérstaklega þýðingarmikill í ljósi þess að Celtic hefðu getað tryggt sér titillinn með sigri í leiknum.

Rangers fékk óskabyrjun strax á elleftu mínútu þegar Sone Aluko kom sínum mönnum yfir. Ekki vænkaðist hagur Celtic þegar varnarmaðurinn Du Ri Cha fékk að líta rauða spjaldið um miðjan fyrri hálfleikinn.

Victor Wanyama, leikmaður Celtic fékk að líta rauða spjaldið á 57. mínútu og voru því Celtic orðnir níu á móti ellefu leikmönnum Rangers.

Ljóst var að róðurinn yrði þungur fyrir Celtic og nýttu Rangers sér liðsmuninn og skoruðu tvö mörk með stuttu millibili. Fyrst var það Andrew Little á 72. mínútu og bætti svo Lee Wallace við marki fimm mínútum síðar.

Lokamínúturnar voru fjörlegar og fékk Carlos Bocanegra, leikmaður Rangers að líta rauða spjaldið fyrir brot innan vítateigs á 89 mínútu. Scott Brown, fyrirliði Celtic skoraði úr vítaspyrnunni. Celtic tókst að minnka muninn í eitt mark aðeins mínútu síðar en þar var að verki Thomas Rogne. Lengra komust Celtic menn ekki og 3-2 sigur Rangers því staðreynd.

Nokkuð ljóst er að Celtic mun hampa titlinum í lok tímabils enda munurinn á liðunum heil átján stig þegar sjö umferðir eru eftir. Sigurinn var þó gríðarlega kærkominn fyrir lið Rangers enda liðið búið að vera í mikilli upplausn að undanförnu vegna fjárhagsvandræða.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×