Það þýðir að Gylfi Þór Sigurðsson, Jóhann Berg Guðmundsson og Rúnar Alex Rúnarsson verða allir í íslenska landsliðshópnum sem mætir þýska liðinu síðar í mars mánuði. Ljóst er að þýska knattspyrnusambandið hefur sótt um undanþágu fyrir leikmenn sem leika í ensku úrvalsdeildinni þar sem fjöldi leikmanna liðsins leikur þar.
Óvíst er hvort Jón Daði Böðvarsson getur mætt í leikinn þar sem hann leikur með Millwall í B-deildinni.
Mikil óvissa ríkti varðandi þátttöku þeirra Gylfa Þórs, Jóhanns Bergs og Rúnars Alex en í tilkynningu þýska sambandsins fá leikmennirnir nú svokallaða vinnusóttkví. Þeir þurfa því ekki að fara í tíu daga sóttkví svo lengi sem þeir skila af sér neikvæðu kórónuveiruprófi. Niðurstaða prófsins þarf að hafa fengist innan við 24 tímum áður en komið er til landsins.
Eins og áður sagði er þýska sambandið með eigin hagsmuni að leiðarljósi þó þetta komi sér líka vel fyrir íslenska liðið.
Ilkay Gündogan [Manchester City], auk þeirra Timo Werner, Antonio Rüdiger og Kai Havertz [allir hjá Chelsea], Bernd Leno [Arsenal] og Robin Koch [Leeds United] eru allir á mála hjá félögum í ensku úrvalsdeildinni.
Ísland mætir Þýskalandi þann 25. mars á Reisen-Arena í Duisburg.