Fótbolti

Lið Hlínar spilaði þrátt fyrir smit

Sindri Sverrisson skrifar
Hlín Eiríksdóttir (næstlengst til hægri) á æfingu með Piteå í vor.
Hlín Eiríksdóttir (næstlengst til hægri) á æfingu með Piteå í vor. Instagram/@Piteadam

Hlín Eiríksdóttir og liðsfélagar hennar í Piteå spiluðu leik í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta þrátt fyrir að smit hafi greinst í leikmannahópnum. Fjórir leikmenn liðsins til viðbótar hafa nú greinst með kórónuveiruna.

Hlín, sem hélt í atvinnumennsku frá Val í vetur, lék allan leikinn fyrir Piteå í gær í 2-0 tapi á heimavelli gegn Eskilstuna.

Aftonbladet greinir frá því að fyrir leikinn hafi leikmaður Piteå greinst með smit. Annar leikmaður hafi svo fundið fyrir einkennum í leiknum og greinst með smit, og þrír til viðbótar greinst við skimun eftir leik.

„Það er erfitt að segja til um það hvort við hefðum átt að gera eitthvað öðruvísi,“ sagði Arne Zingmark, liðslæknir Piteå, við Aftonbladet.

Zingmark segir að eftir að fyrsta smitið greindist hafi sóttvarnayfirvöld í Norðurbotni, héraðinu sem Piteå tilheyrir, mælt með því að liðið héldi æfingum og keppni áfram eins og ekkert hefði ískorist. Smitið greindist um miðja síðustu viku, segir Aftonbladet. Læknirinn er ekki á því að fresta hefði átt leiknum við Eskilstuna vegna þess:

„Nei, það gerir maður ekki út af einu smiti,“ sagði Zingmark.

Piteå hefur nú frestað liðsæfingum og mun taka næstu skref í samráði við sóttvarnayfirvöld.

Leikmenn Eskilstuna fara í skimun á morgun, segir Magnus Karlsson íþróttastjóri félagsins sem kveðst sáttur við hvernig Piteå tók á málinu. Niðurstöður úr skimuninni ráða svo framhaldinu en Eskilstuna á að mæta Rosengård á sunnudag. Glódís Perla Viggósdóttir leikur með Rosengård og lék áður með Eskilstuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×