Strax á 3. mínútu leiksins lentu Erlingur og Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals, í árekstri.
„Úfff! Erlingur Agnarsson og Haukur Páll keyra saman og hausarnir skella harkalega saman. Leikurinn er stöðvaður um leið og sjúkraliðar kallaðir til enda steinlágu þeir báðir,“ segir í beinni textalýsingu Vísis frá leiknum.
Haukur Páll stóð upp eftir aðhlynningu en Erlingur þurfti að fara af velli og láta gera að sárum sínum en hann var með stóran skurð eftir áreksturinn. Erlingur var svo tekinn af velli þegar 20 mínútur voru liðnar af leiknum.
„Hann fékk góðan skurð á höfuðið og var heftaður saman. Hann fann svo fyrir óþægindum eftir á þannig það var ekkert annað í stöðunni en að taka hann út af,“ sagði Einar Guðnason í stuttu spjalli við Vísi um meiðsli Erlings.

Einar staðfesti einnig að Erlingur hefði ekki fengið heilahristing og því ætti hann að vera klár strax í næsta leik sem er 29. ágúst gegn FH.
Víkingar unnu leikinn 2-1 og eru nú jafnir Íslandsmeisturum Vals á toppi Pepsi Max deildarinnar með 36 stig. Blikar eru stigi á eftir en eiga leik til góða og stefnir í hörkubaráttu um Íslandsmeistaratitilinn.

Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.