Fótbolti

Ætlar ekki að eyða orku í leik­menn sem eru ekki á svæðinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen fyrir leikinn gegn Armenum á dögunum.
Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen fyrir leikinn gegn Armenum á dögunum. Vísir/Jónína Guðbjörg

Eiður Smári Guðjohnsen, aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins í knattspyrnu, var spurður út í fjarveru Guðlaugs Victors Pálssonar fyrir landsleik kvöldsins gegn Liechtenstein.

Eiður Smári ræddi við RÚV fyrir leikinn og var spurður út í miðjumanninn Stefán Teit Þórðarson sem er að spila sinn fyrsta mótsleik fyrir íslenska A-landsliðið.

„Við þekkjum Stefán Teit vel úr U-21 landsliðinu. Við teljum hann hafa tekið stór skref með sínu félagsliði og hann hefur verið að spila vel. Það er góð orka í honum og hann þekkir hlutverkið,“ sagði Eiður Smári um innkomu Skagamannsins á miðju íslenska liðið.

Stefán Teitur kemur inn fyrir Guðlaug Victor sem ákvað eftir leikinn gegn Armenum að halda aftur til Þýskalands þar sem hann leikur með Schalke 04 í þýsku B-deildinni. Hann gaf því ekki kost á sér í leik kvöldsins.

„Það er einn og hálfur tími í leik og ég ætla ekki að eyða orku í leikmenn sem eru ekki á svæðinu því þá gætum við talið upp þónokkra,“ sagði aðstoðarþjálfarinn aðspurður út í fjarveru Guðlaugs Victors.

„Við gerðum honum grein fyrir að við vildum halda honum. Við erum í vissri uppbyggingu og hann er hluti af því. Leikmaðurinn hefur rétt á því að taka sína ákvörðun,“ sagði Eiður að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×