Létu sjálfs­­mark Stones ekki á sig fá | Jafnt í Þýska­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ekkert vesen var á Manchester City í kvöld.
Ekkert vesen var á Manchester City í kvöld. Chloe Knott/Getty Images

Manchester City vann öruggan 4-1 sigur á Club Brugge í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Þá náði RB Leipzig í sitt fyrsta stig er liðið gerði 2-2 jafntefli við París Saint-Germain.

Lærisveinar Pep Guardiola unnu fyrri viðureign liðanna 5-1 í Belgíu og var leikur kvöldsins í raun aðeins formsatriði en gestirnir komu á óvart. Eftir að Phil Foden kom Man City yfir eftir aðeins stundarfjórðung var talið að heimamenn myndu ganga frá leiknum í kjölfarið.

Allt kom fyrir ekki og Brugge jafnaði metin þökk sé sjálfsmarki John Stones á 17. mínútu, staðan orðin 1-1 og þannig var hún í hálfleik.

Í þeim síðari stigu heimamenn á bensíngjöfina. Riyad Mahrez kom þeim yfir og varamaðurinn Raheem Sterling gerði í raun út um leikinn á 72. mínútu. Gabriel Jesus bætti svo við fjórða markinu í uppbótartíma og lauk leiknum með 4-1 sigri Manchester City.

Í hinum leik riðilsins mættust RB Leipzig og París Saint-Germain í Þýskalandi. Leipzig komst yfir snemma leiks þökk sé marki Christopher Nkunku og skömmu síðar fengu þeir vítaspyrnu. Sem betur fyrir gestina er Gianluigi Donnarumma ágætis vítabani og varði spyrnu Andre Silva.

Gini Wijnaldum jafnaði svo metin fyrir gestina á 21. mínútu eftir sendingu Kylian Mbappé. Wijnaldum var svo aftur á ferðinni skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks og kom gestunum yfir. Staðan 1-2 í hálfleik og virtist sem það yrðu lokatölur leiksins. 

Í uppbótartíma fengu heimamenn hins vegar vítaspyrnu og að þessu sinni kom Donnarumma engum vörnum við. Dominik Szoboszlai tók spyrnuna og jafnaði metin í 2-2. Reyndust það lokatölur leiksins og Leipzig því loks komið á blað í Meistaradeildinni.

Manchester City trónir því á toppi A-riðils með 9 stig, PSG kemur þar á eftir með 8 stig, Brugge er með 4 stig og Leipzig er með 1 stig á botni riðilsins.

Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira