8. maí er oftast kallaður Victory in Europe Day eða Sigurdagurinn í Evrópu. Í vesturhluta Evrópu er deginum fagnað í dag en þar sem skrifað var undir sáttmálann klukkan 23:01 á miðevrópskum tíma var nýr dagur genginn í garð austan megin við Berlín. Dagurinn er því haldinn hátíðlegur 9. maí austantjalds.
Dagurinn er afar mikilvægur fyrir Rússa og nýta þeir daginn til að sýna fram á styrk hermanna sinna. Síðan árið 2008 hefur verið haldin skrúðganga árlega þar sem rússneski herinn gengur um götur og rúntar um á skriðdrekum.
Pútín heldur einnig ræðu um mikilvægi hersins. Í ár er nokkuð ljóst að hann muni tala um hernaðaraðgerðirnar í Úkraínu og talið er að hann muni tilkynna breytingu í stríðinu. BBC telur að vegna mikils mannsfalls rússneskra hermanna þá muni hann tilkynna að hann ætli að fjölga hermönnum innan landamæra Úkraínu.
Pútín hefur talað mikið um að „af-nasistavæða“ Úkraínu og því er það talið líklegt að hann muni líkja innrásinni í Úkraínu við aðgerðir Rússa gegn Þýskalandi í seinni heimsstyrjöldinni.
Veðurspáin er þó ekki hliðholl Pútín en spáð er mjög köldu veðri í Moskvu á morgun. Í nótt er spáð hellidembu og yfir eftirmiðdaginn einstaka skúrum.