Hinn 23 ára gamli Mbappé hefur verið orðaður við Real Madríd allt síðan félagið reyndi að kaupa hann sumarið 2021.
Mbappé hefur gefið út að hann hafi verið stuðningsmaður Real allt síðan í æsku og benti allt til þess að franski sóknarmaðurinn myndi færa sig til Madrídar er samningur hans í París rynni út að tímabilinu loknu.
Það er þangað til í gær þegar fregnir bárust af nýjum þriggja ára samning PSG við Mbappé.
Spænska úrvalsdeildin er ekki par sátt með ákvörðun Mbappé og ætlar í hart. Deildin hefur gefið út að það sé ekki fræðilegur möguleiki á því að fjárhagsstaða París Saint-Germain geri liðinu kleift að bjóða Mbappé svipaðan samning og Real Madríd gerði.
Ætlar spænska deildin að leggja fram kvörtun við UEFA, frönsk skattayfirvöld og Evrópusambandið.
Í yfirlýsingu La Liga segir að PSG hafi tapað 220 milljónum evra á síðustu leiktíð og meira en 700 milljónum evra á undanförnum árum. Þá gagnrýnir La Liga auglýsinga samninga franska liðsins og tekur saman hversu dýr leikmannahópur þess sé (650 milljónir evra).
Að lokum segir að hegðun Al-Khelafi, forseta PSG, ógni stöðugleika evrópsks fótbolta á sama hátt og hin svokallaða „Ofurdeild Evrópu“ en Real Madríd – liðið sem taldi sig vera að fá Mbappé – var meðal liða sem barðist hvað mest fyrir stofnun hennar.
BREAKING: LaLiga have released a statement announcing they will file a complaint against Paris Saint-Germain over Kylian Mbappe's new contract... pic.twitter.com/Ymjf0YlJpd
— Sky Sports News (@SkySportsNews) May 21, 2022
Mbappé hélt upp á nýjan samning sinn við PSG með því að skora þrennu í 5-0 sigri á Metz í lokaumferð frönsku úrvalsdeildarinnar. Talandi um að nudda salti í sárin.