Oftar en ekki er talað um að þessar yngri njóti góðs af því að spila með reyndari leikmönnum, sem er auðvitað hárrétt, en þetta gengur líka hina leiðina til baka ef marka má einn af leiðtogum íslenska liðsins, varafyrirliðann Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur.
„Við erum mjög spenntar og búnar að eiga mjög góðan undirbúning, bæði á Íslandi en svo áttum við góðan leik á móti Póllandi, fórum til Puma og nú erum við loksins mættar til Englands,“ sagði Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir.
„Það er búið að vera svolítið geggjað að vera svolítið afsíðis síðustu daga og geta bara einbeitt sér að því að undirbúa sig fyrir EM. Puma var geggjað og ég er ánægð með að við náðum inn þessum leik á móti Póllandi,“ sagði Gunnhildur Yrsa og leikurinn á móti Pólverjum, sem vannst 3-1, var nýttur vel.
„Við erum búin að vinna úr honum því sem við þurftu að vinna úr og erum tilbúnar í fyrsta leik,“ sagði Gunnhildur Yrsa og spennustigið í hópnum verður á réttum stað.
„Það góða við þennan hóp er þetta eru svo magnaðar stelpur og þótt að spennustigið sé eflaust hátt þá eru allir að díla við það vel. Ég held að maður þurfi að vera svolítið spenntur og stressaður fyrir svona leik. Við þurfum að finna jafnvægið á því og mæta til leiks með sjálfstraust,“ sagði Gunnhildur.
Gunnhildur Yrsa er reynslumikil og þekkir það vel að vera í þessari stöðu nú þegar aðeins nokkrar dagar eru í EM.
„Ég reyni að hjálpa til eins mikið og ég get. Ungu leikmennirnir geta líka hjálpað okkur eldri. Þetta er góða blanda af leikmönnum og ég er mjög spennt fyrir þessu,“ sagði Gunnhildur sem talar vel um liðsfélaga sína.
„Þetta er svo skemmtilegur hópur að ég get eiginlega ekki lýst þessu. Það er alltaf gaman á æfingu og við erum alltaf að hverja hverja aðra áfram til að vera betri. Ég gæti ekki verið ánægðari með þær,“ sagði Gunnhildur Yrsa.