Fótbolti

„Það var rosaleg næring í þessum sigri, það er ekki spurning“

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, var virkilega sáttur eftir kærkominn sigur
Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, var virkilega sáttur eftir kærkominn sigur Vísir/Hulda Margrét

„Þetta er stórkostlegt, loksins fengum við smá sigurvímu. Við gerðum þetta aðeins spennandi svona eins og þetta á að vera,“ sagði Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, eftir fyrsta sigur ÍBV í Bestu deild karla í dag er liðið tók á móti Val. Lokatölur 3-2. 

„Við erum búnir að vera að hóta þessu í þó nokkrum leikjum, það er ekki spurning og eiginlega allt tímabilið. Það átti bara eftir að landa einum. Þetta leit vel út í 2-0, það hefði verið agalega svekkjandi að klára það ekki. Geggjaður karakter að lenda í 2-2 og brenna af víti og klára þetta svo. Við erum búnir að vera hóta þessu ansi lengi að taka þrjú stig. Við höfum trú á því í hverri viku að við séum að fara taka þrjú stig og loksins.“

Eyjamenn voru komnir 2-0 eftir 60 mínútur en Valsmenn náðu að jafna. Hermann sagði það hafa verið vonbrigði að Valur jafnaði en var sáttur með sína menn að koma sér aftur yfir og að lokum vinna leikinn. 

„Auðvitað voru það vonbrigði því mér fannst við vera með ágætis tök á leiknum, svona lítið í gangi. Svo var staðan orðin 2-2 og það var helvíti mikil orka farinn í þetta hjá okkur. En einhvern veginn fannst manni alltaf að þessi sigur ætti að koma í dag. Drengirnir kláruðu þetta glæsilega.“

Næsti leikur er á móti Leikni og segir Hermann þá ætla að halda ótrauða áfram. 

„Það er búið að vera svakalega góður fókus og stemmnings hugafar. Við erum að njóta þess að spila fótbolta og njóta þess að berjast og slást fyrir hvorn annan. Það hefur endurspeglast í frammistöðunum. Það var rosaleg næring í þessum sigri, það er ekki spurning.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×