Sérfræðingur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sagði í hádegisfréttum í gær að þrátt fyrir að fleiri íbúðir hefðu verið í byggingu um síðustu áramót en árið áður þá vantaði enn um þúsund íbúðir upp á þann fjölda á landinu til að fullnægja fyrirliggjandi þörf.
Samtök atvinnulífsins tóku undir þetta og sögðu að þó að stöðugleiki í framboði væri meiri en áður þá væri enn lóðaskortur hjá mörgum sveitarfélögum á landinu. Reykjavík væri þar stærst en borgaryfirvöld hefðu ekki verið að standa sig varðandi framboðið.
Einar Þorsteinsson oddviti Framsóknar í borginni og formaður Borgarráðs lagði mikla áherslu á aukið lóðaframboð í síðustu kosningabaráttu. Hann segir þetta alls ekki rétt.
„Það kemur dálítið á óvart að Samtök iðnaðarins skuli ekki taka betur eftir því hvað er að gerast í Reykjavík. Því borgin er að taka algjöra forystu í uppbyggingu húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu. Við erum núna langt komin með samninga við Húsnæðis-og mannvirkjastofnun um uppfærða húsnæðisáætlun sem gerir ráð fyrir því að byggðar verði tvö þúsund íbúðir á ári að lágmarki og að byggingarhæfar lóðir verði allt að þrjú þúsund á ári,“ segir Einar.
Hann segir að borgin hafi til að mynda nýverið úthlutað lóðum á Kjalarnesi og í Úlfarsárdal. Hann segist hins vegar sjá að uppbygging mætti vera hraðari.
„Við finnum reyndar fyrir því að það virðist vera að lánasstofnanir séu að draga úr framkvæmdalánum til uppbyggingaraðila. Það er mikið áhyggjuefni,“ segir Einar.
Samtök iðnaðarins gagnrýndu enn fremur að regluverk kringum byggingargeirann væri seinvirkt og flókið. Einar tekur undir það.
„Þetta hef ég sjálfur gagnrýnt. Við erum núna hjá borginni í miðju kafi að einfalda ferla. Sveitarfélögin þurfa líka að taka þátt í þessu við hjá borginni erum á fullri ferð,“ segir Einar að lokum.