Innlent

Fjögur bætast við á lista þeirra sem fá heiðurs­laun lista­manna

Atli Ísleifsson skrifar
Kristín Þorkelsdóttir hlaut heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands árið 2020. Hún bætist nú við á lista þeirra sem hljóta heiðurslaun listamanna.
Kristín Þorkelsdóttir hlaut heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands árið 2020. Hún bætist nú við á lista þeirra sem hljóta heiðurslaun listamanna. ALDÍS PÁLSDÓTTIR

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis hefur lagt til að listamennirnir Hildur Hákonardóttir, Kristín Þorkelsdóttir, Manfreð Vilhjálmsson og Þórhildur Þorleifsdóttir muni bætast á lista yfir þá sem njóta heiðurslaun listamanna.

Breytingatillaga nefndarinnar við fjárlagafrumvarpið var lögð fram í gær.

Þau Hildur, Kristín, Manfreð og Þórhildur koma í stað fjögurra sem voru á listanum en féllu frá á síðasta ári eða á því sem senn er á enda. Alls eru 25 listamenn á lista þeirra sem hljóta heiðurslaun listamanna.

„Á árunum 2021 og 2022 létust fjórir úr hópi þeirra listamanna sem nutu heiðurslauna, Jón Sigurbjörnsson og Vilborg Dagbjartsdóttir á árinu 2021 og Guðrún Helgadóttir og Þuríður Pálsdóttir árið 2022,“ segir í greinargerðinni með breytingatillögunni.

Hildur Hákonardóttir er myndvefari og rithöfundur, Kristín Þorkelsdóttir grafískur hönnuður sem hannaði meðal annars íslensku peningaseðlana og vegabréfin, Manfreð Vilhjálmsson er arkitekt og Þórhildur Þorleifsdóttir leikkona og leikstjóri.

Þetta er í fyrsta sinn sem listamaður úr röðum grafískra hönnuða og arkitekta kemst á listann.

Verði tillagan samþykkt mun listi yfir þá sem hljóta heiðurslaun listamanna líta þannig út:

  1. Bubbi Morthens
  2. Erró
  3. Friðrik Þór Friðriksson
  4. Guðbergur Bergsson
  5. Guðrún Ásmundsdóttir
  6. Gunnar Þórðarson
  7. Hannes Pétursson
  8. Hildur Hákonardóttir
  9. Hreinn Friðfinnsson
  10. Jón Ásgeirsson
  11. Jón Nordal
  12. Jónas Ingimundarson
  13. Kristbjörg Kjeld
  14. Kristín Jóhannesdóttir
  15. Kristín Þorkelsdóttir
  16. Magnús Pálsson
  17. Manfreð Vilhjálmsson
  18. Matthías Johannessen
  19. Megas
  20. Steina Vasulka
  21. Vigdís Grímsdóttir
  22. Þorbjörg Höskuldsdóttir
  23. Þorgerður Ingólfsdóttir
  24. Þórhildur Þorleifsdóttir
  25. Þráinn Bertelsson

Tengdar fréttir

Ekki verið rætt af alvöru að svipta Megas heiðurslaunum í ár

Heiðurslaunum listamanna verður úthlutað í ár þrátt fyrir að kerfið hafi verið gagnrýnt harðlega undanfarið. Í fyrsta sinn hefur verið óskað eftir tilnefningum frá almenningi. Margir gagnrýndu að tónlistarmaðurinn Megas væri enn á listanum, þrátt fyrir ásakanir um kynferðisbrot. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að fjarlægja neinn af listanum í ár að sögn formanns allsherjar- og menntamálanefndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×