Fótbolti

Fimm ára bann fyrir að falsa þjálfararéttindi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mustapha Hadji hefur verið dæmdur í fimm ára bann fyrir að falsa þjálfararéttindi.
Mustapha Hadji hefur verið dæmdur í fimm ára bann fyrir að falsa þjálfararéttindi. Getty

Mustapha Hadji, knattspyrnuþjálfari og fyrrum leikmaður marokkóska landsliðsins í fótbolta, hefur fengið fimm ára bann frá öllum afskiptum af fótbolta fyrir að falsa þjálfaraskírteini sitt.

Þessi 51 árs gamli fyrrum leikmaður Aston Villa hefur ekki viljað segja hvort hann ætli sér að áfrýja banninu, en það var aganefnd afríska knattspyrnusambandsins, CAF, sem dæmdi í málinu.

Hadji er gert að sök að hafa falsað A-þjálfararéttindi frá CAF.

„Eftir rannsókn tók aganefnd CAF eftir því að A-þjálfararéttindi Hr. Mustapha Hadji eru fölsuð og að hann hefur aldrei sótt námskeið til A-réttinda, ásamt því að ekkert prófskírteini í hans nafni hefur verið gefið út af sambandinu,“ segir í yfirlýsingu CAF.

„Skjalafals er alvarlegt brot sem grefur undan heilindum CAF.“

Sem leikmaður lék Hadji meðal annars með liðum á borð við Aston Villa, Deportivo og Espanyol. Þá lék hann á tveimur heimsmeistaramótum með marokkóska landsliðinu og var valinn leikmaður ársins í Afríku árið 1998.

Sem þjálfari var hann seinast aðstoðarþjálfari marokkóska landsliðsins, en lét af störfum fyrr á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×