Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - KR 89-81 | Grindvíkingar mörðu KR á seiglunni suður með sjó Siggeir Ævarsson skrifar 5. janúar 2023 21:35 Grindvíkingar unnu nauman sigur í kvöld. Vísir/Vilhelm Grindavík vann nauman átta stiga sigur er liðið tók á móti botnliði KR í Subway-deild karla í körfubolta í kvöld, lokatölur 89-81. Grindavíkingar tóku á móti hinu síbreytilega KR-liði í HS-orku höllinni í Subway-deild karla í kvöld. Í vikunni bárust fréttir af brotthvarfi þriggja leikmanna KR, þeirra Dags Kárs Jónssonar, Jordan Semple og EC Matthews. EC var þó með KR í sínum síðasta leik í kvöld og kvaddi með 28 stigum, stigahæstur á vellinum. KR-ingar voru einnig með nýjan leikmann í sínum herbúðum, Lithánn Justas Tamulis. Rétt fyrir leik kom svo í ljós að Finninn Aapeli Alanen væri meiddur og Þorsteinn Finnbogason kom inn í byrjunarliðið í fyrsta sinn í vetur í stöðu kraftframherja. Þessar miklu breytingar virtust þó ekki hafa afgerandi áhrif á KR til að byrja með, sem komust í 11-22, en Grindvíkingar virkuðu full rólegir í tíðinni gegn líflegum KR-ingum. En eftir því sem á leið riðluðu þessar breytingar þó sóknarleik KR-inga töluvert þar sem menn voru að spila útúr sínum stöðum og leysa hlutverk sem þeir voru ekki vanir. Grindvíkingar unnu sig hægt og bítandi inn í leikinn og voru um það bil hálfu skrefi á undan KR-ingum, sem gáfust þó aldrei upp og náðu að gera leikinn spennandi allt til loka. Eins og oft áður í vetur dugði barátta KR-inga þeim þó skammt og Grindvíkingar fóru að lokum með sanngjarnan sigur af hólmi, lokatölur 89-81. Af hverju vann Grindavík? Þeir gerðu nákvæmlega það sem þeir þurftu að gera til að klára þennan leik, en ekki mikið meira en það. Á köflum var eins og þeir væru að spara sig en svo komu sprettir inn á milli þar sem þeir settu allt á fullt, rifu lausa bolta, skutust inn í sendingar og kveiktu í áhorfendum með kraftmiklum troðslum. Hverjir stóðu upp úr? EC Matthews var frábær í þessum leik. Hann getur skorað nánast þegar honum dettur í hug og er ótrúlega lunkinn við að klára færin sín undir pressu. Það verður klár eftirsjá af honum úr þessari deild. EC bætti við 7 fráköstum en lét duga að setja eina stoðsendingu á skýrsluna. Hjá Grindavík var Damier Pitts drjúgur undir lokin og setti nokkrar stórar körfur ásamt því að stjórna leik Grindavíkur eins og herforingi. 22 stig frá honum, 6 fráköst og 6 stoðsendingar. Ólafur Ólafsson kom einnig með stórar körfur á ögurstundum, 22 stig frá honum sömuleiðis og 9 fráköst ásamt 4 stolnum boltum og 4 stoðsendingum. Hvað gekk illa? Grindvíkingum gekk illa að finna sinn takt í þessum leik, voru ólíkir sjálfum sér, en lönduðu samt sigri, og það er það sem telur, burtséð frá því hversu mikið vantaði uppá áferðarfallegan körfubolta á löngum köflum. Hvað gerist næst? Grindvíkingar eru búnir að vinna þrjá leiki í röð, og eru komnir upp að hlið Blika í 5. – 6. sæti, en Blikar eiga leik gegn Þórsurum á morgun. Næsti leikur Grindvíkinga er útileikur gegn Val eftir rúmar 2 vikur, þann 20. janúar. KR-ingar eru enn rígfastir við botninn með einn sigur. Þeir eiga leik næst heima gegn Blikum þann 19. janúar. Mínir menn kannski svolítið værukærir til að byrja með Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur.Vísir/Vilhelm Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindvíkinga tók undir þau orð blaðamanns að þessi sigur hefði verið erfið fæðing en frammistaða KR-inga kom honum ekki á óvart, og sagði að Grindvíkingar hefðu í raun sloppið með skrekkinn að mæta þeim á þessum tímapunkti. „Já algjörlega. Eins og ég sagði fyrir leik, þá eru KR að púsla saman nýju liði og allt það og mínir menn kannski svolítið værukærir til að byrja með. Kannski búnir að vera að skoða töfluna eitthvað. En við vorum mjög góðir í svona 20 mínútur, eða í það minnsta varnarlega. En við náðum aldrei fullkomlega okkar einkennum upp í þennan leik, þetta náði aldrei þeim hæðum og þá var þetta erfitt. Þetta KR lið er þannig að EC getur skorað nánast hvenær sem er og Matti virðist vera að komast í takt, og þetta er hörku Lithái sem þeir voru að fá. Ég held að þetta sé bara uppá við hjá KR ef þeir ná sér í góðan Kana.“ Grindvíkingar róteruðu mikið í kvöld, keyrðu á 10 leikmönnum og gáfu reynsluminni mönnum mínútur á vellinum. Var einhver þreyta eða meiðsli að hrjá Grindvíkinga? „Nei nei. Við vorum svolítið heppnir á móti Þórsurunum síðast, þar sem við í rauninni bara springum og lykilmenn voru orðnir þreyttir. Við vorum alveg meðvitaðir um það og vorum að rótera í kvöld.“ Svo að þetta voru einfaldlega forvirkar aðgerðir? „Já má segja það. Svo þarf bara að treysta þessum strákum, þeir þurfa að vinna sér inn sénsinn og grípa hann þegar hann kemur.“ Jóhann viðurkenndi þó að Pitts hefði ekki verið alveg heill, en hann virðist enn eiga eitthvað smá í að ná fullu leikformi. Hléið á deildinni væri því kærkomið til að ná mönnum í 100% stand. „Já og hann fékk tak í nárann í vikunni, þannig að hann var langt frá því að vera 100% en það kemur gott stopp núna og við munum nýta tímann að æfa vel og koma mönnum í það stand sem við viljum hafa þá.“ Subway-deild karla KR UMF Grindavík
Grindavík vann nauman átta stiga sigur er liðið tók á móti botnliði KR í Subway-deild karla í körfubolta í kvöld, lokatölur 89-81. Grindavíkingar tóku á móti hinu síbreytilega KR-liði í HS-orku höllinni í Subway-deild karla í kvöld. Í vikunni bárust fréttir af brotthvarfi þriggja leikmanna KR, þeirra Dags Kárs Jónssonar, Jordan Semple og EC Matthews. EC var þó með KR í sínum síðasta leik í kvöld og kvaddi með 28 stigum, stigahæstur á vellinum. KR-ingar voru einnig með nýjan leikmann í sínum herbúðum, Lithánn Justas Tamulis. Rétt fyrir leik kom svo í ljós að Finninn Aapeli Alanen væri meiddur og Þorsteinn Finnbogason kom inn í byrjunarliðið í fyrsta sinn í vetur í stöðu kraftframherja. Þessar miklu breytingar virtust þó ekki hafa afgerandi áhrif á KR til að byrja með, sem komust í 11-22, en Grindvíkingar virkuðu full rólegir í tíðinni gegn líflegum KR-ingum. En eftir því sem á leið riðluðu þessar breytingar þó sóknarleik KR-inga töluvert þar sem menn voru að spila útúr sínum stöðum og leysa hlutverk sem þeir voru ekki vanir. Grindvíkingar unnu sig hægt og bítandi inn í leikinn og voru um það bil hálfu skrefi á undan KR-ingum, sem gáfust þó aldrei upp og náðu að gera leikinn spennandi allt til loka. Eins og oft áður í vetur dugði barátta KR-inga þeim þó skammt og Grindvíkingar fóru að lokum með sanngjarnan sigur af hólmi, lokatölur 89-81. Af hverju vann Grindavík? Þeir gerðu nákvæmlega það sem þeir þurftu að gera til að klára þennan leik, en ekki mikið meira en það. Á köflum var eins og þeir væru að spara sig en svo komu sprettir inn á milli þar sem þeir settu allt á fullt, rifu lausa bolta, skutust inn í sendingar og kveiktu í áhorfendum með kraftmiklum troðslum. Hverjir stóðu upp úr? EC Matthews var frábær í þessum leik. Hann getur skorað nánast þegar honum dettur í hug og er ótrúlega lunkinn við að klára færin sín undir pressu. Það verður klár eftirsjá af honum úr þessari deild. EC bætti við 7 fráköstum en lét duga að setja eina stoðsendingu á skýrsluna. Hjá Grindavík var Damier Pitts drjúgur undir lokin og setti nokkrar stórar körfur ásamt því að stjórna leik Grindavíkur eins og herforingi. 22 stig frá honum, 6 fráköst og 6 stoðsendingar. Ólafur Ólafsson kom einnig með stórar körfur á ögurstundum, 22 stig frá honum sömuleiðis og 9 fráköst ásamt 4 stolnum boltum og 4 stoðsendingum. Hvað gekk illa? Grindvíkingum gekk illa að finna sinn takt í þessum leik, voru ólíkir sjálfum sér, en lönduðu samt sigri, og það er það sem telur, burtséð frá því hversu mikið vantaði uppá áferðarfallegan körfubolta á löngum köflum. Hvað gerist næst? Grindvíkingar eru búnir að vinna þrjá leiki í röð, og eru komnir upp að hlið Blika í 5. – 6. sæti, en Blikar eiga leik gegn Þórsurum á morgun. Næsti leikur Grindvíkinga er útileikur gegn Val eftir rúmar 2 vikur, þann 20. janúar. KR-ingar eru enn rígfastir við botninn með einn sigur. Þeir eiga leik næst heima gegn Blikum þann 19. janúar. Mínir menn kannski svolítið værukærir til að byrja með Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur.Vísir/Vilhelm Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindvíkinga tók undir þau orð blaðamanns að þessi sigur hefði verið erfið fæðing en frammistaða KR-inga kom honum ekki á óvart, og sagði að Grindvíkingar hefðu í raun sloppið með skrekkinn að mæta þeim á þessum tímapunkti. „Já algjörlega. Eins og ég sagði fyrir leik, þá eru KR að púsla saman nýju liði og allt það og mínir menn kannski svolítið værukærir til að byrja með. Kannski búnir að vera að skoða töfluna eitthvað. En við vorum mjög góðir í svona 20 mínútur, eða í það minnsta varnarlega. En við náðum aldrei fullkomlega okkar einkennum upp í þennan leik, þetta náði aldrei þeim hæðum og þá var þetta erfitt. Þetta KR lið er þannig að EC getur skorað nánast hvenær sem er og Matti virðist vera að komast í takt, og þetta er hörku Lithái sem þeir voru að fá. Ég held að þetta sé bara uppá við hjá KR ef þeir ná sér í góðan Kana.“ Grindvíkingar róteruðu mikið í kvöld, keyrðu á 10 leikmönnum og gáfu reynsluminni mönnum mínútur á vellinum. Var einhver þreyta eða meiðsli að hrjá Grindvíkinga? „Nei nei. Við vorum svolítið heppnir á móti Þórsurunum síðast, þar sem við í rauninni bara springum og lykilmenn voru orðnir þreyttir. Við vorum alveg meðvitaðir um það og vorum að rótera í kvöld.“ Svo að þetta voru einfaldlega forvirkar aðgerðir? „Já má segja það. Svo þarf bara að treysta þessum strákum, þeir þurfa að vinna sér inn sénsinn og grípa hann þegar hann kemur.“ Jóhann viðurkenndi þó að Pitts hefði ekki verið alveg heill, en hann virðist enn eiga eitthvað smá í að ná fullu leikformi. Hléið á deildinni væri því kærkomið til að ná mönnum í 100% stand. „Já og hann fékk tak í nárann í vikunni, þannig að hann var langt frá því að vera 100% en það kemur gott stopp núna og við munum nýta tímann að æfa vel og koma mönnum í það stand sem við viljum hafa þá.“
Uppgjörið: KR - Grindavík 120-112 | KR fór með sigur úr framlengingu gegn fáliðuðum Grindvíkingum