Union Berlin hefur gengið vel að undanförnu en fyrir leikinn í dag hafði liðið unnið þrjá leiki í röð í deild og bikar og sátu í öðru sæti Bundesligunnar, einu stigi á eftir Bayern Munchen.
Kevin Behrens kom Union Berlin í 1-0 á 32.mínútu leiksins í dag og þannig var staðan í hálfleik. Gestirnir frá Mainz jöfnuðu metin úr vítaspyrnu á 78.mínútu en Bandaríkjamaðurinn Jordan Siebatcheu skoraði sigurmark Union á 84.mínútu leiksins.
Með sigrinum fer Union Berlin upp fyrir Bayern Munchen og í toppsæti deildarinnar. Margfaldir meistarar Bayern eiga leik á morgun gegn Wolfsburg á útivelli og geta þá náð toppsætinu á nýjan leik.
Borussia Dortmund er sömuleiðis með í toppbaráttunni en þeir jöfnuðu Bayern Munchen að stigum með 5-1 sigri á Freiburg á heimavelli í dag.
Nico Schlotterback, Karim Adeyemi, Sebastian Haller, Julian Brandt og Giovanni Reyna skoruðu mörk Dortmund í dag en Dortmund skoraði fjögur mörk í síðari hálfleik eftir að staðan í leikhléi var 1-1.
Önnur úrslit í þýska boltanum:
FC Köln - RB Leipzig 0-0
Eintracht Frankfurt - Hertha Berlin 3-0
Vfl Bochum - Hoffenheim 5-2