Fótbolti

UEFA ber á­byrgð á at­burðunum fyrir úr­slita­leik Meistara­deildarinnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lögreglan beitti táragasi á stuðningsmenn sem voru að reyna að komast inn á völlinn.
Lögreglan beitti táragasi á stuðningsmenn sem voru að reyna að komast inn á völlinn. Matthias Hangst/Getty Images

Sjálfstæð og óháð rannsóknarnefnd hefur komist að því að evrópska knattspyrnusambandið UEFA ber ábyrgð á þeim atburðum sem áttu sér stað fyrir utan Stade de France fyrir viðureign Liverpool og Real Madrid í úrslitum Meistaradeildar Evrópu í maí á síðasta ári.

Fyrir þennan stærsta leik ársins ríkti sannkallað ófremdarástand fyrir utan leikvanginn þar sem gríðarlega langar raðir mynduðust fyrir utan völlinn, einhverjir stuðningsmenn reyndu að brjótast inn á leikvanginn og lögregla beitti táragasi á stuðningsmenn liðanna.

Af þessum sökum tafðist leikurinn umtalsvert. Upphaflega átti hann að hefjast klukkan 19:00 en þar sem stór hluti stuðningsmanna Liverpool hafði ekki enn komist í stúkuna var honum seinkað um 36 mínútur.

Í kjölfarið kenndu UEFA og frönsk yfirvöld miðasölusvindli um troðninginn og raðir sem mynduðust, en þær ásakanir féllu í grýttan jarðveg meðal almennings.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar kemur hins vegar fram að engar sannanir sýni fram á að slíkar ásakanir eigi sér stoð í raunveruleikanum.

„Nefndin hefur komist að því að UEFA, sem viðburðarhaldari, beri meginábyrgð á þeim mistökum sem gerð voru sem nánast leiddu til stórslyss,“ segir í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Í skýrslunni kemur þó einnig fram að aðrir aðilar beri að einhverjum hluta ábyrgð á því sem gekk á fyrir utan völlinn, en að UEFA hafi verið við stjórnvölin og því liggi meginábyrgðin hjá sambandinu.

„UEFA átti að hafa yfirsýn og yfirumsjón með öryggi á staðnum og ganga þannig úr skugga um að allt myndi virka sem skyldi. Það gerði það augljóslega ekki,“ segir enn fremur í skýrslunni.

Það var portúgalski stjórnmálamaðurinn Dr. Tiago Brandao Rodrigues sem fór með yfirumsjón með skýrslunni, en í nefndinni sátu einnig sérfræðingar úr stéttum lögfræðinga, löggæslumanna og viðburðarstjóra, ásamt fulltrúum stuðningsmannafélaga knattspyrnuliða.

Það var evrópska knattspyrnusambandið sjálft sem fyrirskipaði rannsóknina vegna atburðanna sem áttu sér stað í París þann 28. maí á síðasta ári, þremur dögum eftir að úrslitaleikurinn fór fram.

Í yfirlýsingu UEFA á þeim tíma sagði að yfirgripsmikil og óháð rannsókn myndi fara fram, þar sem þónokkrir þættir yrðu til skoðunar. Þar á meðal var ákvarðanataka, ábyrgð og hegðun þeirra sem áttu hlut að máli á.

Theodore Theodoridis, framkvæmdarstjóri UEFA, sendi svo frá sér yfirlýsingu fyrr í dag þar sem hann þakkar nefndinni fyrir sín störf og biðst afsökunar á atburðunum.

„Fyrir hönd UEFA vil ég enn og aftur biðja alla þá sem lentu í þessum atburðum á viðburði sem átti að vera gleðistund og hápunktur tímabilsins innilegrar afsökunar,“ segir í yfirlýsingu Theodoridis.

„Sérstaklega vil ég biðja stuðningsmenn Liverpool afsökunar á því sem margir þeirra þurftu að upplifa á leið sinni á leikinn og fyrir þau skilaboð sem send voru út fyrir leik og á meðan að leik stóð þar sem þeim var kennt um aðstæðurnar sem mynduðust og urðu til þess að leiknum var frestað.“


Tengdar fréttir

Áttu að vera upp­lifa drauminn en héldu að þau myndu deyja

Að fara á úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í fótbolta ætti að vera góð skemmtun en fyrir stuðningsfólk Liverpool reyndist það hreint helvíti. Morðhótanir, piparúði og troðningur bættist ofan á tap Liverpool.

UEFA biður Liverpool og Real Madrid afsökunar

Tæpri viku eftir úrslitaleik Meistaradeildarinnar í París hefur knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, loks beðist afsökunar á þeirri óreiðu sem varð fyrir utan Stade de France leikvanginn.

UEFA fyrirskipar rannsókn vegna atburðanna í París

Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, tilkynnti í kvöld að sambandið myndi standa að sjálfstæðri og óháðri rannsókn á atburðum fyrir utan Stade de France-völlinn í París þegar Liverpool og Real Madríd áttust við úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu á laugardagskvöld.

Menningarmálaráðherra Bretlands kallar eftir rannsókn frá UEFA

Nadine Dorries, menningarmálaráðherra Bretlands, hefur kallað eftir því að evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, hefji formlega rannsókn á þeim atburðum sem áttu sér stað fyrir utan Stade de France áður en úrslitaleikur Meistaradeildarinnar fór fram í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×