Fótbolti

Hvetur Mbappé til að hafna Real Madrid: „Betra að vera kóngurinn í þínu þorpi“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Framtíð Kylians Mbappé er í lausu lofti.
Framtíð Kylians Mbappé er í lausu lofti. getty/Catherine Steenkeste

Samir Nasri, fyrrverandi leikmaður Arsenal, Manchester City og fleiri liða, hvetur Kylian Mbappé til að halda kyrru fyrir hjá Paris Saint-Germain og hafna Real Madrid.

Mbappé hefur lengi verið orðaður við Real Madrid. Samningur hans við PSG rennur út eftir þetta tímabil og þá getur hann farið frítt til spænsku bikarmeistaranna.

Það ætti hann hins vegar ekki að gera að mati Nasris. Hann segir að honum sé betur borgið að vera aðalmaðurinn hjá PSG.

„Ef hann fer sparast peningur og þeir geta fengið aðra leikmenn. En það verður aldrei Mbappé. Það er klárt,“ sagði Nasri.

„Hann er svo mikilvægur, hvort sem það er í PSG eða franska landsliðinu. Fyrir tveimur árum sagði ég að hann væri besti leikmaður heims og ég er enn sömu skoðunar. Hann er frá París. Ef ég væri í hans sporum myndi ég vera áfram hjá PSG í staðinn fyrir að fara til Real Madrid og vinna fimmtugasta Meistaradeildartitilinn með þeim. Ef Marseille hefði verið í eigu Katara þegar ég var hjá félaginu hefði ég aldrei farið. Það er betra að vera kóngurinn í þínu þorpi.“

Eftir að hafa verið settur út í kuldann fyrir að neita að skrifa undir nýjan samning við PSG hefur Mbappé verið öflugur á þessu tímabili og skorað tólf mörk í öllum keppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×