Enski boltinn

„Hlutirnir þurfa líka að falla með þér“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mikel Arteta var í leikbanni og fylgdist með úr stúkunni.
Mikel Arteta var í leikbanni og fylgdist með úr stúkunni. Catherine Ivill/Getty Images

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, var eðlilega heldur súr þegar hann ræddi við fjölmiðla eftir 1-0 tap sinna manna gegn Aston Villa á Villa Park í Birmingham.

Toppbarátta ensku úrvalsdeildar karla í knattspyrnu er galopin þökk sé Aston Villa og John McGinn. Villa er í 3. sæti, stigi á eftir Arsenal sem er stigi á eftir toppliði Liverpool.

„Ég er stoltur af því hvernig liðið spilaði á þessum velli og gegn þessu liði. Við áttum skilið að vinna leikinn en þú verður að vera betri í vítateigunum tveimur og hlutirnir þurfa líka að falla með þér,“ sagði Arteta að leik loknum.

„Það var einn þeirra hluta sem gekk ekki upp [að setja boltann í netið]. Sérstaklega í síðari hálfleik því þá misstum við stjórn á leiknum. Gáfum boltann auðveldlega frá okkur. Sóttum of hratt því það er freistandi að setja boltann aftur fyrir háu varnarlínuna þeirra. Við hefðum getað gert það betur.“

„Þetta er augljóst fyrir mér,“ sagði Arteta aðspurður út í ákvarðanir dómara leiksins en mark var dæmt af Arsenal undir lok leiks.

„Þeir eru þar sem þeir eru með heimavallarárangur sem þeir eiga fyllilega skilið því þegar þú vinnur jafn marga heimaleiki og raun ber vitni áttu hrós skilið.“

„Ég sagði þeim að reisa sig við vegna þess þeir spiluðu vel. Ég sé mörg lið mæta á þennan leikvang en hef ekki séð mörg gera það sem við gerðum í dag. Úrslitin voru vissulega ekki til staðar en frammistaðan var það,“ sagði Arteta að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×