Diljá var að vanda í liði Leuven í dag þegar liðið tók á móti Standard Liege en gestirnir höfðu betur, 1-0, og komust á topp deildarinnar, í það minnsta tímabundið. Áður hafði Leuven tapað fyrir Anderlecht fyrir viku síðan.
Þegar tvær umferðir eru eftir er Leuven með 35 stig í 3. sæti, Standard efst með 39 stig og Anderlecht með 38 auk þess að eiga leik til góða síðar í dag.
Sveinn Aron við það að falla
Sveinn Aron Guðjohnsen var á varamannabekknum hjá Hansa Rostock sem tapaði fimmta leik sínum í röð í þýsku B-deildinni, 2-1 gegn Schalke.
Hansa er í fallsæti og fellur ef Wehen Wiesbaden vinnur sinn leik á morgun, við Braunschweig sem Þórir Jóhann Helgason leikur með.
Hansa er einu stigi á eftir Wehen Wiesbaden en með mun verri markatölu og þyrfti að vinna Paderborn í lokaumferðinni til að forðast fall, og treysta á að Wehen Wiesbaden fái aðeins eitt stig úr síðustu tveimur leikjum sínum.
Sveinn Aron hefur aðeins fengið einn leik í byrjunarliði Hansa frá því að hann var keyptur frá Elfsborg í ársbyrjun, en spilað ellefu deildarleiki.
Emelíu skipt inn á og aftur út af
Í Danmörku fagnaði Emelía Óskarsdóttir 2-0 sigri með Köge gegn Bröndby. Kristín Dís Árnadóttir var í byrjunarliði Bröndby en var skipt af velli í upphafi seinni hálfleiks, þegar staðan var orðin 2-0, og Hafrún Rakel Halldórsdóttir var ekki með liðinu.
Samkvæmt leikskýrslu á kvindeliga.dk var Emelíu skipt inn á hjá Köge á 56. mínútu en aftur út af á 80. mínútu, og má því gera ráð fyrir að hún hafi orðið fyrir meiðslum.
Bröndby er áfram í 2. sæti með 39 stig en núna aðeins þremur stigum á undan Köge. Nordsjælland er á toppnum með 40 stig og á leik til góða við AGF í dag.