Enski boltinn

Leik­manna­sam­tök ensku úr­vals­deildarinnar beita sér gegn eyðslu­þaki

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Englandsmeistara Manchester City sem og annarra stórliða ensku úrvalsdeildarinnar þéna ágætlega og hafa engan áhuga á að lækka í launum.
Leikmenn Englandsmeistara Manchester City sem og annarra stórliða ensku úrvalsdeildarinnar þéna ágætlega og hafa engan áhuga á að lækka í launum. Michael Regan/Getty Images

Fundur eiganda liða í ensku úrvalsdeild karla í fótbolta fer fram síðar í dag. Þar er talið næsta víst að kosið verði gegn hugmynd um eyðsluþak en sú umræða kom upp á dögunum. 

Vísir greindi frá því undir lok aprílmánaðar að sextán af tuttugu liðum ensku úrvalsdeildarinnar væru hlynnt því að eyðsluþak yrði sett á félögin. Það myndi þýða að ekkert félag mætti eyða meira en fimm sinnum það sem tekjulægsta lið deildarinnar væri að þéna í gegnum fjölmiðla og auglýsingasamninga.

Áður en tillagan var sett fram voru félög deildarinnar hleruð og spurð álits. Þar kom í ljós að Aston Villa og Manchester-liðin tvö, City og United, væru á móti tillögunni á meðan Chelsea sat hjá.

Það stefndi allt í að kosið yrði um tillöguna á fundinum sem fram fer síðar í dag og ef hún yrði samþykkt ætti hún að taka gildi frá og með tímabilinu 2025-26. Leikmannasamtökin PFA stigu hins vegar inn í þar sem ljóst er að tillagan myndi hafa áhrif á launahæstu leikmenn deildarinnar.

Talið er líklegt að fjárhagsreglur deildarinnar taki einhverjum breytingum á næstunni en sem stendur má ekkert félag tapa meira en 105 milljónum punda, átján og hálfum milljarði íslenskra króna, yfir þriggja ára tímabil. 

Sum lið vilja hækka þessa tölu þar sem hún hefur staðið í stað í nærri áratug á meðan önnur vilja fara aðrar leiðir. Hvort breyting verði gerð í ár kemur í ljós síðar í dag þegar fundi eiganda félaganna er lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×