Fótbolti

Þjálfari Dana mætti reiður með síma í við­tal: „Svona á fót­bolti ekki að vera“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kasper Hjulmand með símann.
Kasper Hjulmand með símann.

Kasper Hjulmand, þjálfari danska karlalandsliðsins í fótbolta, var allt annað en sáttur við dómgæsluna í leiknum gegn Þýskalandi á EM í gær. Hann sagði regluna um hendi vera fáránlega.

Skömmu eftir hálfleik í leiknum í Dortmund í gær skoraði Joachim Andersen fyrir danska liðið. Markið var hins vegar dæmt af eftir skoðun á myndbandi þar sem Thomas Delaney var rétt fyrir innan.

Andartaki síðar var dæmd vítaspyrna á Andersen eftir að hann fékk boltann í höndina innan teigs. Kai Havertz tók spyrnuna, skoraði og kom Þjóðverjum yfir. Jamal Musiala gulltryggði svo sigur þýskra og sætið í átta liða úrslitum.

Hjulmand gagnrýndi dómarann Michael Oliver og VAR-teymið í leikslok. Og hann mætti með síma í viðtalið til að sýna mynd af rangstöðunni í markinu sem var dæmt af Andersen.

„Ég er með mynd hérna. Þetta var einn sentímetri. Þetta gengur ekki upp. Svona eigum við ekki að nota VAR. Þetta er sentímetri,“ sagði Hjulmand sem sneri sér svo að vítinu sem var dæmt.

„Ég er svo þreyttur á þessum fáránlegu reglum um hendi. Við getum ekki beðið varnarmennina um að hlaupa með hendur með síðum. Það er ekki eðlilegt. Joachim hljóp eðlilega. Þetta var eðlileg staða. Hann stökk upp og fékk boltann í sig af eins metra færi. Ég tala ekki oft um dómaraákvarðanir en þetta skipti miklu máli. Þetta er svekkjandi fyrir liðið okkar. Að komast 1-0 yfir hefði breytt öllu. Svona á fótbolti ekki að vera.“

Danir unnu ekki leik á EM og hafa raunar ekki unnið leik á síðustu tveimur stórmótum sem þeir hafa tekið þátt á.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×