Cristiano Ronaldo og félagar í portúgalska landsliðinu eru úr leik á EM eftir tap í vítaspyrnukeppni gegn Frökkum, í 8-liða úrslitum í Þýskalandi í kvöld.
Eftir 120 markalausar mínútur réðust úrslitin í vítaspyrnukeppni þar sem Frakkar skoruðu úr öllum fimm spyrnum sínum. Joao Felix skaut hins vegar í stöng úr þriðju spyrnu Portúgals og það réði á endanum úrslitum.
Leikurinn var á löngum köflum ansi tíðindalítill en óhætt er að segja að liðin hafi fengið dauðafæri á bráðfjörugum kafla um miðjan seinni hálfleik. Vitinha átti skot af stuttu færi sem Mike Maignan náði að verja, og hann sá einnig við Cristiano Ronaldo í kjölfarið.
Mbappé með kælipoka á andlitinu
Strax í kjölfarið fengu Kolo Muani og Eduoardo Camavinga dauðafæri fyrir Frakka en tókst ekki að nýta þau, og staðan var markalaus eftir níutíu mínútur.
Hún var síðan enn markalaus eftir framlenginguna. Kylian Mbappé var tekinn af velli eftir fyrri hálfleik hennar, með kælipoka á andlitinu eftir högg sem hann fékk í venjulegum leiktíma, en hann hefur leikið með andlitsgrímu eftir nefbrot í fyrsta leik á EM. Ronaldo spilaði hins vegar áfram en gekk illa að komast í færi.
Kylian Mbappé holding ice on his nose. 🤕 pic.twitter.com/y2EMTaWalz
— KMZ (@KM10Zone) July 5, 2024
Nuno Mendes komst hins vegar í gott færi til að skora á lokamínútu framlengingarinnar en skaut svo til beint á Maignan og því endaði leikurinn í vítaspyrnukeppni.
Frakkar mæta Spánverjum í undanúrslitum á þriðjudag, en Spánn sló Þýskaland út fyrr í kvöld. Átta liða úrslitunum lýkur svo á morgun þegar England mætir Sviss og Holland mætir Tyrklandi.