Fótbolti

De Ligt og Mazra­oui til United á morgun

Siggeir Ævarsson skrifar
Matthijs De Ligt hitar upp með hollenska landsliðinu
Matthijs De Ligt hitar upp með hollenska landsliðinu vísir/Getty

Sagan endalausa um félagaskipti Matthijs de Ligt til Manchester United virðist loks ætla að taka enda ef eitthvað er að marka fréttaflutning knattspyrnuvéfréttarinnar Fabrizio Romano.

Endalausar fréttir af mögulegum kaupum United á de Ligt hafa flætt yfir fréttamiðla í allt sumar en eftir að liðið seldi Aaron Wan-Bissaka til West Ham fyrir 15 milljónir punda virðist loksins vera komið nógu mikið svigrúm í bókhald klúbbsins til að klára málið. 

De Ligt er ekki eini leikmaður Bayern sem United eru að festa kaup á en Noussair Mazraoui er einnig sagður fylgja með í kaupunum.

United hafa verið í miklum vandræðum með varnarlínu sína sökum meiðsla og bætist bara á listann. Frakkinn ungi Leny Yoro kom til liðsins frá Lille á dögunum en meiddist á fæti í æfingaleik gegn Arsenal og verður frá næstu þrjá mánuði.

Liðið stillti þeim Harry Maguire og hinum 36 ára Jonny Evans upp í hjarta varnarinnar í gær gegn Manchester City í leiknum um Samfélagsskjöldinn. Lisandro Martínez var meiddur meira og minna allt síðasta tímabil, það sama má segja um Luke Shaw. Þá eru þeir Tyrell Malacia og Victor Lindelöf eru báðir á meiðslalistanum.

Tveir nýir varnarmenn eru því kærkomin viðbót við hóp Manchester United en sá böggull fylgir reyndar skammrifi að de Ligt hefur sjálfur verið mikið meiddur en hann spilaði aðeins 22 leiki af 38 í þýsku úrvalsdeildinni síðasta vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×