Erlent

Sprengingar við ísraelska sendi­ráðið í Kaup­manna­höfn

Kjartan Kjartansson skrifar
Vopnaðir lögreglumenn standa vörð við ísraelska sendiráðið í Kaupmannahöfn eftir sprengingarnar í morgun.
Vopnaðir lögreglumenn standa vörð við ísraelska sendiráðið í Kaupmannahöfn eftir sprengingarnar í morgun. Vísir/EPA

Engan sakað í sprengingum við ísraelska sendiráðið í Kaupmannahöfn í nótt. Vopnaðir lögreglumenn gættu sendiráðsins eftir sprengingarnar á meðan rannsakendur leituðu að sönnunargögnum á vettvangi.

Öryggisverðir sendiráðsins heyrðu tvær sprengingar um klukkan 3:20 að staðartíma í nótt, um 1:20 að íslenskum tíma, samkvæmt upplýsingum lögreglunnar í Kaupmannahöfn. Sendiráðið er staðsett í norðanverðri borginni ásamt fleiri sendiráðum erlendra ríkja.

Lögreglan treystir sér enn ekki til að segja hversu stórar sprengingarnar voru. Þær séu meðal annars rannsakaðar út frá þeirri staðreynd að þær áttu sér stað rétt við ísraelska sendiráðið. Stórt svæði í kringum vettvanginn hefur verið girt af, að sögn danska ríkisútvarpsins.

Mikil spenna er nú fyrir botni Miðjarðarhafs vegna hernaðaraðgerða 'Ísraela á Gasaströndinni og í Líbanon. Írönsk flugskeyti hæfðu Ísrael í gærkvöldi og nótt en fregnir af mögulegum manntjóni þar hafa enn ekki borist. Ísraelsk stjórnvöld hafa heitið hefndum.

Peter Hummelgaard, dómsmálaráðherra Danmerkur, segir of snemmt að segja nokkuð til um tilefni sprenginganna en stjórnvöld taki þær grafalvarlega. Öryggisviðbúnaður við stofnanir gyðinga í Danmerkur hafi verið aukinn eftir þær.

Starfsfólkið slegið

Í yfirlýsingu frá ísraelska sendiráðinu í Danmerku segir að starfsfólk þess sé slegið vegna sprenginganna. Það hafi fulla trú á rannsókn dönsku lögreglunnar á þeim.

Gyðingaskólinn Karólínuskólinn sem er í næsta nágrenni sendiráðsins verður lokaður í dag vegna sprenginganna í nótt.

Sprengingarnar í Kaupmannahöfn koma beint í kjölfar frétta af skothríð við ísraelska sendiráðið í Stokkhólmi í gær. Meiriháttar lögregluaðgerð fór þar í gang eftir að tilkynnt var um að skotum hefði verið hleypt af þar. Lögreglumenn fundu skotvopn og tóm skothylki við sendiráðið, að sögn sænsku sjónvarpsstöðvarinnar TV4.

Sprengjusveit sænsku lögreglunnar aftengdi það sem var lýst sem hættulegum hlut fyrir utan ísraelska sendiráðið í janúar, að sögn Reuters.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×