Á blaðamannafundi í gær, þar sem forsætisráðherrann var að kynna aðgerðir ríkisstjórnar sinnar til að takmarka fjölda innflytjenda í Kanada á næstu árum, sagðist Trudeau ekki ætla að víkja. Hann myndi leiða Frjálslynda flokkinn í komandi kosningum.
Immigration is central to the story of Canada. Our decision to temporarily reduce the number of immigrants is a pragmatic one that addresses the needs of our economy right now. pic.twitter.com/MmNvfqcHBy
— Justin Trudeau (@JustinTrudeau) October 24, 2024
Eftir níu ár í ríkisstjórn hafa vinsældir Trudeau í augum kjósenda minnkað mjög. Kanadíska ríkisútvarpið (CBC) segir kannanir benda til þess að Íhaldsflokkurinn sé með nítján prósentustiga forskot á Frjálslynda flokkinn. Til stendur að næstu þingkosningar verði haldnar fyrir október á næsta ári en nákvæmlega hvenær liggur ekki fyrir að svo stöddu.
Áðurnefndir þingmenn birtu opið bréf þar sem þeir kölluðu eftir því að Trudeau færi af velli til að forða flokknum frá því að hljóta afhroð í komandi þingkosningum. Trudeau fundaði með þingflokki sínum í þrjár klukkustundir á miðvikudaginn og lýsti hann umræðunum sem „kröftugum“, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.
Hann sagðist þó ekki ætla að víkja, eins og áður hefur komið fram, hann myndi leiða flokkinn í kosningunum á næsta ári. Enginn kanadískur forsætisráðherra hefur setið í fjögur kjörtímabil í röð í meira en hundrað ár.
Ráðherrar Trudeau segja hann njóta stuðnings mikils meirihluta 153 þingmanna Frjálslynda flokksins.
Að minnsta kosti einn þingmannanna sem skrifaði undir bréfið sagðist vonsvikinn með að Trudeau virtist ekki hafa tekið sér nokkurn tíma til umhugsunar. Sean Casey, umræddur þingmaður, sagðist þó ekki ætla að grípa til frekari aðgerða. Hann hefði talið það skyldu sína að lýsa yfir áhyggjum sínum og nú væri málið dautt.