Dýr­lingunum slátrað á leik­vangi heilagrar Maríu

Kvöldið var erfitt fyrir leikmenn Southampton.
Kvöldið var erfitt fyrir leikmenn Southampton. Vísir/Getty

Tottenham valtaði yfir lið Southampton þegar liðin mættust á St. Marys leikvanginum í dag. Spurs skoraði fimm mörk í fyrri hálfleik og fagnaði að lokum 5-0 sigri.

Southampton hefur ekki átt sjö dagana sæla í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og var eitt og yfirgefið í botnsæti deildarinnar fyrir leikinn gegn Tottenham í dag. Lið Tottenham hefur átt í bölvuðum vandræðum með að ná stöðugleika í sínum leik, unnið glæsta sigra en tapað illa þess á milli.

Það varð fljótt ljóst að leikurinn í dag yrði einn af þessum glæstu sigrum Tottenham. Liðið var komið í 3-0 eftir stundarfjórðung eftir mörk frá James Maddison, Heung-Min Son og Dejan Kulusevski. Mark Maddison kom aðeins eftir 36 sekúndur.

Spurs bætti tveimur mörkum við áður en fyrri hálfleikur var á enda. Pape Sarr skoraði fjórða markið á 25. mínútu og Maddison bætti fimmta markinu við í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Í síðari hálfleik slokknaði hins vegar á gestunum. Leikurinn einfaldlega fjaraði rólega út og lokatölur urðu 5-0. Martröð fyrir Southampton sem er níu stigum frá öruggu sæti í deildinni. Tottenham er í 10. sæti og ekki langt í liðin í sætunum fyrir ofan.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira