Fleiri fréttir

Mikið svifryk í borginni

Styrkur svifryks fór yfir heilsuverndarmörk í gær í 27. sinn á árinu. Líklegt er að hann verði einnig yfir heilsuverndarmörkum í dag. Klukkan 13.30 voru hálftímagildin 361 míkrógramm á rúmmetra í mælistöð við Grensásveg. Meðaltal frá miðnætti er 149 míkrógrömm. Heilsuverndarmörk á sólarhring eru 50 míkrógrömm.

Gjörgæsludeildin græðir á endurunnum farsímum

Jón Gnarr, borgarstjóri, ýtti úr vör endurvinnsluverkefni Reykjavíkurborgar og fyrirtækisins Grænnar Framtíðar í dag með því að skila inn til endurvinnslu smáraftækjum sem ekki eru lengur í notkun.

Uppnám í ísraelsku kjarnorkuveri

Ísraelski flugherinn skaut í gær niður eitthvað flugfar sem flaug yfir Dimona kjarnorkuverið í Negev eyðimörkinni. Ekki er enn vitað hvað þar var á ferðinni.

Fargjöld hjá Strætó hækka - stakt fargjald í 350 krónur

Stjórn Strætó bs. hefur samþykkt að hækka fargjöld í fyrsta sinn frá því í janúar 2007. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að þetta sé gert til þess að mæta rýnandi fargjaldatekjum. Þær hafa dregist saman um helming að raunvirði frá stofnun Strætó bs. árið 2001þar sem fargjöld hafa ekki haldið í við almenna verðlagsþróun frá þeim tíma. Hækkunin tekur gildi um áramót og eftir hana mun stakt fargjald kosta 350 krónur og stök barnafargjöld verða afnumin.

Jólalegasta húsið í Sandgerði verðlaunað

Umhverfisráð Sandgerðisbæjar veitti viðurkenningu fyrir Jólahús Sandgerðisbæjar 2010 í gær 16. desember. Í ár var það Stafnesvegur 3 sem hlaut viðurkenninguna en er það hús áberandi vel skreytt og hefur fallega heildarmynd. Eigandi hússins er Grétar Pálsson. Auk viðurkenningar fékk Grétar gjafabréf frá Hitaveitu Suðurnesja að verðmæti 20.000 krónur. Sigrún Árnadóttir, bæjarstjóri Sandgerðisbæjar, afhenti viðurkenninguna en Guðrún Jóna Jónsdóttir, barnabarn Grétars, tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd.

Ný lög um fyrningarfrest samþykkt á þingi

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um styttingu fyrningarfrests var samþykkt á Alþingi í morgun. Með lögunum verður fyrningarfrestur á kröfum sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti 2 ár. Hingað til hefur fyrningarfrestur á kröfum verið mismunandi. Frumvarpið var samþykkt með 43 greiddum atkvæðum. 16 greiddu ekki atkvæði og fjórir þingmenn voru fjarstaddir.

Kista forsetamorðingja seld

Líkkista mannsins sem myrti John F. Kennedy forseta Bandaríkjanna hefur verið seld á uppboði fyrir 90 þúsund dollara. Það gerir um 10,5 milljónir íslenskra króna.

„Fyrirtækin losna úr klafa samningaþófs og skuldavanda“

Viðskiptaráðherra vonast til að endurskipulagningu lítilla og meðalstórra fyrirtækja verði lokið fyrir næsta sumar, en framkvæmdastjóri úr bankakerfinu segir nýtt samkomulag um úrvinnslu skulda þeirra geta skipt miklu fyrir fyrirtækin. Samkomulag um leiðir við úrvinnslu skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja var kynnt stjórnendum fyrirtækja á fundi á Grand Hótel í morgun, en samkomulagið var undirritað á miðvikudag.

Svaraði ekki beint um stuðning allra í ríkisstjórn við Icesave

Ögmundur Jónasson dómsmálaráðherra og þingmaður VG svaraði því ekki beint þegar hann var spurður að því á þingi í dag hvort Icesave málið hafi verið samþykkt í ríkisstjórn og þingflokkum stjórnarflokkanna. Þá sagðist hann ætla að sjá til með það hvort Icesavemálið farið að lokum í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Björgunarsveitir í útköllum

Björgunarsveitin Ísólfur á Seyðisfirði fór á Fjarðarheiði til að aðstoða bíl sem festist á heiðinni í mikilli ofankomu en slæmt veður er á heiðinni eins og víðar um land. Heiðin er ófær en ekkert amaði að fólkinu í bílnum. Að sögn lögreglunnar á Egilsstöðum er leiðindaveður á Austurlandi og enn verra niðri á Fjörðum og upp til heiða.

Gátlisti vegna stormviðvörunar

Veðurstofan hefur spáð stormi á landinu í dag. Af því tilefni vill Slysavarnafélagið Landsbjörg brýna fyrir fólki að gera ráðstafanir svo hægt sé að koma í veg fyrir tjón og óþægindi er vilja fylgja slíku veðri.

Ráðagóðar löggur

Lögreglumenn í bænum Swansea í Wales voru kvaddir til þegar fullorðinn maður tók sér stöðu á þakbrún fimm hæða verslunarhúss og hugðist svipta sig lífi með því að stökkva framaf.

Fjölskylduhjálpin fær tíu milljónir frá Íslandsbanka

Útibú Íslandsbanka á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri og í Reykjanesbæ hafa ákveðið að styrkja starfsemi Fjölskylduhjálpar Íslands um sem nemur 10 milljónum króna. Styrkurinn rennur beint til kaupa á nauðsynjavöru fyrir skjólstæðinga Fjölskylduhjálparinnar á þessum svæðum.

Mótmæla palestinsku sendiráði í Osló

Stjórnvöld í Ísrael hafa mótmælt því að skrifstofa palestínumanna í Osló skuli hafa fengið viðurkenningu sem sendiráð. Í mótmælunum segir meðal annars að þetta ýti undir þær ranghugmyndir palestínumanna að þeir geti náð pólitískum ávinningi á sama tíma og þeir neiti að eiga friðarviðræður við Ísrael.

Tvíburarnir himnasending

Söngkonan Sigríður Beinteinsdóttir og unnusta hennar, Birna María Björnsdóttir, eiga von á tvíburum í maí á næsta ári. Birna María gengur með börnin. Sigríður, sem verður 49 ára næsta sumar, segir þær svífa um á risastóru bleiku skýi. Sigríður vildi ekki upplýsa hvernig frjóvgunin hefði átt sér stað, sagði þær vilja halda því fyrir sig.

Óánægja með veggjöld hjá sunnlenskum sveitarfélögum

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga líta svo á að ef veggjöld verða tekin upp án þess að eldsneytisskattar verði lækkaðir á móti sé ljóst að um hreina tvísköttun verði að ræða. Stjórn samtakanna hefur óskað eftir fundi með Ögmundi Jónassyni samgöngumálaráðherra vegna upptöku veggjalda á Suðurlandsvegi og fleiri leiðum í nágrenni Reykjavíkur.

Meint ástkona Pútíns verður forsíðustúlka Vogue

Nýráðinn ritstjóri rússnesku útgáfu tískuritsins Vogue ætlar að hefja ferilinn með stæl. Forsíðufyrirsæta fyrsta heftis ársins 2011 er Alina Kabajeva en hún er sögð ástkona forsætisráðherra Rússlands, Vladimírs Pútín.

Myndbandaleigur kaupa jafn margar myndir og árið 1993

Yfir 1.000 titlar leigu- og sölumynda voru gefnir út hér á landi á síðasta ári á vegum stærstu útgefenda mynddiska og myndbanda. Þar af voru útgefnar 574 sölumyndir og 490 leigumyndir. Fjöldi útgefinna sölumynda jókst umtalsvert á árabilinu 1997-2004, en fjöldi útgefinna mynda hefur síðan að mestu staðið í stað. Frá 2004 og allt fram undir síðustu ár gætti umtalsverðs samdráttar í útgáfu leigumynda, er titlum fjölgaði lítillega á ný.

Ekkert ferðaveður og búist við stormi

Ekkert ferðaveður er á landinu í dag og búist er við stormi. Veðurstofan spáir vaxandi norðanátt víða 18 til 25 metrum á sekúntu upp úr hádegi. Él og síðar snjókoma um landið norðanvert, en stöku él sunnantil. Dregur úr vindi seint í kvöld, fyrst austantil.

Assange segist fórnarlamb rógsherferðar

Julian Assange stofnandi Wikileaks segir að hann sé fórnarlamb rógsherferðar og að ákæran í Svíþjóð fyrir kynlífsafbrot sé liður í þeirri herferð.

Hnífaárás særði 13 manns í Japan

Japanska lögreglan hefur handtekið mann eftir að hann réðist inn í tvo strætisvagna vopnaður hnífi og særði 13 farþega sem voru í vögnunum.

Þyrla LHG send til Vestmannaeyja eftir slagsmál

Þyrla Landhelgisgæslunnar var send til Vestmannaeyja í nótt til að sækja karlmann á fertugsaldri, sem hafði meiðst alvarlega á höfði í slagsmálum fyrir utan veitingastað í bænum.

Viðbúnaður vegna einkaþotu á Keflavíkurflugvelli

Tveggja hreyfla einkaþota með sex manns um borð lenti á Keflavíkurflugvelli laust upp úr miðnætti eftir að bilun varð í örðum hreyfli hennar með þeim afleiðingum að það drapst á honum.

Rafmagnsstaurar brotnuðu í ofsaveðri í Suðursveit

Mikið óveður brast á suðaustanlands í gærkvöldi og mældist stöðugur vindhraði á Höfn í Hornafirði 30 metrar á sekúndu í gærkvöldi. Ofsaveður var í Suðursveit og brotnuðu þar rafmagnsstaurar þannig að rafmagnslaust varð á stóru svæði og er enn, þar sem ekki viðrar til viðgerða.

Fimmtíu keppa á tíu brautum

Allt stefnir í að slegið verði þátttökumet í sundi hjá Görpum í Sunddeild Breiðabliks á Þorláksmessu. Að þessu sinni verður stóra útilaugin undirlögð af um 50 keppendum sem allir keppa í einu, um fimm á hverri braut. Garpar eru sundmenn eldri en 25 ára og hefur Þorláksmessusundið verið þreytt í tvo áratugi.

Lítur svo á að fækkað hafi í stjórnarliðinu

„Ég met stöðu ríkisstjórnarinnar svo að hún hafi stuðning 32 þingmanna af 63 á Alþingi og þar af leiðandi eins manns meirihluta.“ Þetta sagði Þórunn Sveinbjarnar­dóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, í samtali við Fréttablaðið eftir atkvæðagreiðslu um fjárlög í gær. Þrír þingmenn VG; Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttir, sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Segir ráðherra sýna hnefann

Óljóst er hvernig rekstur Sólheima í Grímsnesi verður frá áramótum. Fulltrúaráð stofnunarinnar veitti framkvæmdastjórn hennar heimild til að segja upp öllum samningum. Sú heimild hefur ekki verið nýtt.

Borg og hverfisráð ósátt við vegriðið

Beygjan á Hringbraut þar sem Vegagerðin reisti vegrið nýlega hefur hönnunarhraða að hámarki 50 kílómetra á klukkustund. Þar er þó leyfður hámarkshraði 60.

Forysta flokka hlynntari ESB en hún lætur uppi

Á hvað í íslensku Evrópu-umræðunni varpa skjöl Wikileaks helst ljósi? „Það er athyglisvert hversu vel bandaríska sendiráðið fylgist með íslensku Evrópu-umræðunni og er vel inni í henni og íslenskum stjórnmálum almennt. Ég efast um að nokkuð sendiráð í Reykjavík vinni vinnuna sína jafn vel," segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði og varaþingmaður Samfylkingar. Baldur hefur sérhæft sig í utanríkistengslum Íslands og sér í lagi tengslum við Evrópu. Hann var beðinn að meta hvort og þá hverju þau skjöl Wikileaks sem greint var frá í blaðinu á laugardag bæta við það sem áður var vitað um þessi mál.

Rótaði í rusli ráðherrans

Danski þjóðarflokkurinn hefur hvatt þingmenn á þjóðarþinginu þar í landi til að senda heimilissorp sitt á skrifstofur Ekstrablaðsins.

Heimasóttkví hrossa er aflétt

Matvælastofnun hefur ákveðið að aflétta hinni formlegu heimasóttkví útflutningshrossa frá áramótum, þar sem lítið hefur borið á sjúkdómnum að undanförnu. Þetta er gert með þeim fyrirvara að sjúkdómurinn blossi ekki upp á ný.

Mjög eindregið vantraust

Hjáseta þingmanna Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í atkvæðagreiðslu um fjárlög er í raun yfirlýsing um að þeir styðji ekki lengur ríkisstjórnina. Þetta er mat Gunnars Helga Kristinssonar, prófessors í stjórnmálafræði við HÍ.

Stal góssi fyrir tvær milljónir

Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið ákærður fyrir að brjótast inn í þrjú íbúðarhús og stela þar munum að verðmæti um tvær milljónir króna. Hann er nú í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni. Maðurinn sóttist einkum eftir flatskjám, tölvubúnaði og myndavélum auk skartgripa.

Gera yrði breytingar á málinu hér heima

Töluverðar breytingar þyrfti að gera á málatilbúnaði slitastjórnar Glitnis gegn svokallaðri sjömenningaklíku Jóns Ásgeirs Jóhannessonar ef ákveðið yrði að höfða málið á Íslandi. Þetta segir Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnarinnar, en tekur jafnframt fram að hún telji að það mundi ekki útheimta ýkja mikla vinnu.

Tveir fíkniefnasalar fyrir dóm

Tveir ungir menn hafa verið ákærðir fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra, meðal annars fyrir fíkniefnasölu. Alls eru fjórir ungir menn ákærðir í málinu. Einn þeirra ók um götur Akureyrar undir áhrifum fíkniefna þar til lögreglan stöðvaði akstur hans. Hinir þrír voru í bílnum með honum, einn með lítilræði af marijúana en hinir tveir með mun meira magn af efninu, bæði í bílnum og heima hjá sér.

Frábrugðið vilja ritnefndar

Sögunefnd Kópavogs segir ljóst að ekki náist það setta markmið að ljúka á þessu ári við ritun sögu Kópavogs frá 1980 til 2010. Þetta kemur fram í greinargerð sem lögð var fram í bæjarráði vegna fyrirspurnar Gunnars I. Birgissonar bæjarfulltrúa.

Bann gæti skapað hættu í höfunum

Utanríkisráðuneytið gerir ýmsar athugasemdir við frumvarp fimmtán þingmanna um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Árni Þór Sigurðsson VG er fyrsti flutningsmaður.

Settu upp stóra kannabisverksmiðju

Hæstiréttur dæmdi í gær þrjá menn í fjögurra, fimm og sex mánaða fangelsi fyrir kannabisræktun og tilraun til stórfellds brots á lögum um fíkniefni. Hann staðfesti þar með dóm héraðsdóms.

Þingfrestun líklega á morgun

Stefnt er að því að þingið starfi í dag og á morgun en fari svo í jólaleyfi. Samkvæmt starfsáætlun átti síðasti starfsdagur á haustþingi að vera í dag. Þingmenn sem rætt var við í gær reiknuðu ekki með að dagurinn dygði til að ljúka þeim málum sem þarf að ljúka fyrir áramót.

Hlustuðu á óraunhæfar hugmyndir

Fjármálaráðuneytið vísar á bug vangaveltum um að komið hafi til greina að semja um lausn Icesave með því að kröfuhafar Landsbankans tækju við þrotabúi hans og greiddu Hollendingum og Bretum Icesave-skuldina. Morgunblaðið sagði frá því í gær að komið hefði til greina að leysa Icesave-málið með fyrrgreindum hætti.

Sjá næstu 50 fréttir