Fleiri fréttir

Fjögur ráðuneyti skoða tolla á kjöti

Starfshópur fjögurra ráðuneyta mun bregðast við úrskurði umboðsmanns Alþingis þess efnis að meinbugir séu á tollalögum og þau stangist á við stjórnarskrá. Málið snýr að heimildum ráðherra til ákvörðunar um álagningu tolla á landbúnaðarvörur.

Tvö útköll vegna elds

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út í gærkvöldi vegna elds í strætóskýli við Skógarsel í Breiðholti.

Burt Reynolds að missa hús sitt

Gamla Hollywood hetjan Burt Reynolds má muna fífil sinn fegri en banki hefur gert kröfu um að einbýlishús hans í Flórída verði selt á uppboði þar sem Reynolds hefur ekki borgað af húsnæðisláni sem hvílir á því í um eitt ár.

Hraunað yfir Rick Perry úr öllum áttum

Rick Perry ríkisstjóri í Texas og einn þeirra sem sækist eftir því að verða forsetaefni Repúblikaflokksins liggur undir harðri gagnrýni þvert á pólitískar línur í Bandaríkjunum fyrir ummæli sín um Ben Bernanke seðlabankastjóra landsins.

Stangast á við orð Murdochs

Clive Goodman, fyrrverandi blaðamaður á breska æsifréttablaðinu News of the World, segir að símhleranir hafi verið mikið notaðar á ritstjórn blaðsins með vitund og fullu samþykki yfirmanna.

Dularfullur Rembrandt þjófnaður

Þjófnaður á Rembrandt teikningu frá hóteli í Los Angeles þykir orðinn dularfullur. Teikningunni, sem er frá árinu 1655 og metin er á um 250 milljónir kr., var stolið frá Ritz-Carlton hótelinu um síðustu helgi.

Reyndu að kúga út tíu milljónir

Hæstiréttur staðfesti í gær gæsluvarðhaldsúrskurð yfir öðrum tveggja Black Pistons-manna, sem sitja inni fyrir meint ofbeldi, hótanir og frelsissviptingu manns. Maðurinn skal sæta gæsluvarðhaldi til 22. september. Félaga hans, sem er jafnframt leiðtogi vélhjólagengisins, var gert að afplána 240 daga eftirstöðvar refsingar.

Enn skelfur jörð við Grindavík

Skjálfti af stærðinni 3,4 varð á ellefta tímanum í gærkvöldi um tvo og hálfan kílómetra austnorður af Grindavík. Skjálftinn átti upptök sín skammt undir yfirborði jarðar eða á um 2,5 kílómetra dýpi og því fannst hann greinilega í bænum.

Lögreglan á Selfossi elti meinta innbrotsþjófa til Reykjavíkur

Lögreglan á Selfossi fékk rétt fyrir klukkan fimm í morgun tilkynningu um yfirstandandi innbrot í sumarhús í Úthlíð. Á leið sinni þangað mætti lögreglan meintum gerendum á bíl en þeir sinntu ekki stöðvunarmerkjum og reyndu að komast undan lögreglu.

Skrímsli eru til rétt eins og dýrlingar

Skrímslasetrið á Bíldudal hefur tekið nokkrum stakkaskiptum síðustu daga. Þó að enn dúsi sömu skrímslin innan veggja eru nú önnur komin utan á safnið. Sá sem hefur laðað þessa vætti á veggina er þó enginn heimamaður, og þó. Þarna er að verki spænski myndlistarmaðurinn Ignacio López Moreno, sem jafnframt er prófessor við Háskólann í Murcia.

Bílaumferðin eykst óvænt

Umferð frá höfuðborgarsvæðinu um hringveginn jókst um tólf prósent um síðustu helgi, miðað við sama tíma í fyrra. Þetta er metaukning milli ára, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.

Í fangelsi fyrir Facebook-skrif

Um 1.400 einstaklingar hafa verið ákærðir fyrir brot í tengslum við óeirðirnar í Bretlandi í síðustu viku. Flestir hafa þegar farið fyrir dómara og nokkrir þegar hlotið dóma.

SA mótmælir hærri sköttum

Samtök atvinnulífsins hafa sent ríkisstjórninni bréf þar sem þau mótmæla áformum um skattahækkanir á stóriðju, sjávarútveg og banka vegna fjárlagagerðar fyrir árið 2012.

Afli í júlí minni í ár en í fyrra

Heildarafli íslenskra fiskveiðiskipa var rúmlega ellefu prósentum minni í júlí 2011 en í sama mánuði í fyrra. Er þá miðað við fast verðlag. Þetta kemur fram í tölum Hagstofu Íslands. Alls veiddust 103.531 tonn í júlí í ár, en 116.942 tonn í júlí 2010.

Hungurverkfallið heldur áfram

Indverska baráttumanninum Anna Hazare var sleppt úr haldi í gær eftir að hafa verið settur í varðhald vegna fyrirhugaðs hungurverkfalls til að þrýsta á um harðari lög gegn spillingu, sem er landlæg í Indlandi.

Shell berst við leka olíuleiðslu

Starfsmenn olíurisans Shell berjast nú við að komast fyrir leka úr lögn frá einum borpalli fyrirtækisins út af ströndum Skotlands.

Varar við „tröllasögum“ um okurleigu

Óvíst er hvers konar áhrif fyrirhuguð innreið Íbúðalánasjóðs mun hafa á leigumarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu. Þetta segir Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður Húseigendafélagsins. Hann bætir því við að sögusagnir um háa leigu skaði markaðinn.

„Gaman að æfa með Daly“

Ólafur Björn Loftsson, fyrrverandi Íslandsmeistari úr Nesklúbbnum, varð fyrsti íslenski kylfingurinn til að tryggja sér keppnisrétt á móti á PGA-mótaröðinni með sigri á hinu sterka Cardinal áhugamannamóti á sunnudag. Ólafur hefur með sigrinum ekki aðeins skrifað nýjan kafla í íslenska golfsögu heldur er það mat manna að árangur hans geti haft djúpstæðari þýðingu fyrir íslenskt golf þegar til framtíðar er litið.

Fyrsta gleðigangan í Nepal

Fyrsta gleðiganga samkynhneigðra í Nepal var haldin um helgina í tengslum við hina fornu kúahátíð Gai jatra. Sú hátíð var upphaflega haldin til að minnast látinna ættingja en hefur á seinni árum snúist upp í almenna gleðihátíð, þar sem fólk klæðir sig gjarnan í alls kyns afkáralega búninga og hefur frávik mannlífsins í hávegum.

35 látnir í árás hersins

35 manns hafa látist af völdum hersins í borginni Latakia í Sýrlandi undanfarna fjóra daga, að sögn íbúa. Af sautján manns sem drepnir voru í landinu á mánudag samkvæmt mannréttindasamtökum voru sex í Latakia.

Einn af virtari viðburðum PGA-mótaraðarinnar

Sedgefield golfklúbburinn geymir mikla sögu enda gestgjafi eins grónasta viðburðar á PGA-mótaröðinni frá stofnun hennar, eða Wyndham Championship. Stofnað var upphaflega til mótsins árið 1938 undir heitinu Greater Greensboro Open, og var Sedgefield klúbburinn gestgjafinn í yfir fjóra áratugi samfleytt. Sagan geymir meistara eins og Sam Snead, Gary Player, Byron Nelson og Ben Hogan, svo fáeinir af frægari kylfingum fortíðarinnar séu nefndir.

Lést í hákarlaárás í brúðkaupsferðinni sinni

Yfirvöld á Seychelles eyjum hafa staðfelst að þrítugur karlmaður frá Bretlandi hafi látið lífið þegar hákarl réðst á hann við Paslin eyju í dag. Maðurinn var staddur á eyjunni ásamt eiginkonu sinni í brúðkaupsferð þeirra hjóna.

Tíu kílómetra maraþon í rafmagnshjólastól

Andri Valgeirsson er einn þeirra sjö þúsund hlaupara sem hafa skráð sig til þátttöku í Reykjavíkurmaraþoninu, sem fer fram laugardaginn 20 ágúst næstkomandi. Þrátt fyrir mikinn fjölda hlaupara má gera ráð fyrir því að Andri komi til með að skera sig sýnilega úr fjöldanum. Andri er nefnilega bundinn við rafmagnshjólastól.

Fálkaunginn dafnar vel í Húsdýragarðinum

Fálkaunginn sem var fluttur særður frá Akureyri til Reykjavíkur fyrir tæpri viku er orðinn aðalstjarna Húsdýragarðsins. Þar dvelur hann í veglegu búri, fær lambakjöt í gogginn og hlýðir á fallega tóna.

Hyggjast uppræta unglingadrykkju á Menningarnótt

Óvenjulegur blaðamannafundur um Menningarnótt fór fram á Hlemmi í dag, strætisvagnabiðstöðinni sem borgarstjóri kallar æskustöðvar sínar. Lögregla hyggst uppræta unglingadrykkju á Menningarnótt.

Frásagnir vitna benda til spyrnukeppni

Frásagnir vitna benda til að ökumaður í bílslysi við Geirsgötu á föstudag hafi verið að keppa í spyrnu við annan bíl þegar hann hafnaði á húsvegg. Talsmaður umferðarstofu kallar eftir viðhorfsbreytingu þegar kemur að áhættuhegðun í umferðinni.

Óeining veikir stöðu Íslands í aðildarviðræðum við ESB

Fulltrúi í samninganefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu telur að óeining innan ríkisstjórnarinnar hafi veikt stöðu landsins í viðræðunum, en Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í fréttum Stöðvar 2 síðastliðinn sunnudag að hann vildi draga umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu tafarlaust til baka.

Segir sveitarfélögin hvetja til verkfallsbrota

"Það er eins og að skvetta olíu á eldinn að halda því fram að hægt sé að hafa leikskóladeildir opnar þótt deildarstjórinn sé í verkfalli" Þetta segir lögfræðingur kennarasambandsins sem telur sveitarfélögin hvetja til verkfallsbrota í kjaradeilu leikskólakennara.

Umboðsmaður Alþingis kannar kvörtun Hagsmunasamtaka Heimilanna

Umboðsmaður Alþingis hefur krafið Seðlabankastjóra skýringa á reglum sem heimila verðtryggingu á höfuðstól lána. Hagsmunasamtök heimilanna segja þetta veigamikið mál fyrir heimilin í landinu en þau sendu kvörtun til Umboðsmanns um þetta mál.

Vilja sameiginlega efnahagslega stjórn

Leiðtogar Frakklands og Þýskalands, þau Angela Merkel og Nicolas Sarkozy, lögðu það til í dag að allar þær sautján þjóðir sem notast við Evruna skyldu taka upp samræmdar fjárhagsáætlanir í stjórnarskrám sínum. Þá vilja þau sameiginlega stjórn yfir Evrusvæðinu.

„Það er að færast aukin harka í leikinn"

„Í verkfallsréttinum felst heimild til að koma í veg fyrir að gengið sé í störf þeirra sem eru í verkfalli. Ef deildarstjóri er í verkfalli, og það er hans hlutverk að stýra deildinni, þá má enginn ganga í það starf," segir Erna Guðmundsdóttir, lögfræðingur Kennarasambands Íslands, sem Félag leikskólakennara heyrir undir. Forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga meta það hins vegar sem svo að ekki þurfi að leggja niður starfsemi deildarinnar þó deildarstjórinn sé í verkfalli og ennfremur að heimilt sé til að færa á milli deilda það starfsfólk sem ekki er í verkfalli. „Við bara ítrekum okkar túlkun á því hvenær nauðsynlegt er að loka deild og hvenær ekki," segir Erna og vísar í verklagsreglur sem leikskólastjórnendur hafa fengið til að hafa til hliðsjónar ef til verkfalls kemur. Þar segir meðal annars að ef deildarstjórar leikskóla eru ekki í Félagi leikskólakennara má viðkomandi deild taka við börnum sem skráð eru þangað, en ekki af öðrum deildum. Algengast er að aðstoðarleikskólastjórar í Reykjavík starfi einnig sem deildarstjórar og munu þeir því halda áfram að taka á móti leyfilegum fjölda barna er miðast við útreikninga á fjölda barna á hvern starfsmann. Þá munu ófaglærðir starfsmenn leikskóla, sem ekki eru í Félagi leikskólakennara, einnig mæta áfram til vinnu ef til verkfalls kemur. „Erna vekur ennfremur athygli á því að þeim starfsmönnum leikskóla sem ekki fara í verkfall, ef til verkfalls kemur, er óheimilt að ganga í störf og sinna verkefnum þeirra sem eru í verkfalli. „Ef þetta væri hægt þá væri enginn tilgangur með verkfalli," segir hún. Spurð hvernig það megi vera að túlkun sveitarfélaganna sé svo frábrugðin túlkun leikskólakennara, segir hún: „Þegar viðsemjendur eru búnir að sitja lengið við fer að myndast meiri spenna. Það er að færast aukin harka í leikinn. Dagsetningin 22. ágúst nálgast." Verkfall blasir við ef ekki nást samningar fyrir mánudag. Ekki hefur verið boðað til nýs samningafundar.

SA mótmæla skattahækkunum bréflega

Samtök atvinnulífsins mótmæla áformum um skattahækkanir á stóriðju, sjávarútveg og banka vegna fjárlagagerðar fyrir árið 2012. SA telja áformin afar misráðin og benda á að allt kapp verði að leggja á að auka fjárfestingar og hagvöxt eins og stefnt var að við gerð kjarasamninga og fram kemur í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. maí.. Þetta kemur fram í bréfi Samtaka atvinnulífsins til Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra. Í bréfinu kemur fram það mat SA að skattheimta á Íslandi sé komin á ystu mörk og engin efni til að hækka skatta frekar en orðið er enda sé Ísland í 4.-5. sæti yfir mestu skattalönd heimsins þegar skoðað er hlutfall skatttekna af landsframleiðslu og tekið er tillit til mismunandi fyrirkomulags lífeyrismála. SA telja að þau áform sem kynnt hafa verið um skattahækkanir beri þess merki að ákveðin uppgjöf hafi orðið við að ná endum saman í ríkisbúskapnum. Ítarleg rök eru færð fyrir því í bréfi SA að hækkun skatta á stóriðju, sjávarútveg og fjármálafyrirtæki sé skaðleg fyrir íslenskt efnahagslíf og leggjast því Samtök atvinnulífsins eindregið gegn áformum ríkisstjórnarinnar. „Aukin skattheimta felur í sér uppgjöf gagnvart því verkefni að efla atvinnulífið, ná niður atvinnuleysinu og bæta lífskjör þjóðarinnar til frambúðar," segja Vilmundur Jósefsson, formaður SA, og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, í niðurlagi bréfsins.

Uppreisnarmenn eiga ekki í viðræðum við Sameinuðu þjóðirnar

Leiðtogi uppreisnarmanna í Líbíu hefur vísað því á bug að hann eigi í viðræðum við erindreka Sameinuðu þjóðanna. Þetta kom fram á upplýsingafundi nú fyrr í dag. Leiðtoginn, Mustafa Abdel Jalil, tók einnig fram að hann ætti ekki í nokkrum viðræðum við ríkisstjórn Muammar Gaddafi.

Þrjár kannabisræktanir í Hafnarfirði

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði þrjár kannabisræktanir í Hafnarfirði á föstudag og laugardag. Nokkrir karlmenn voru handteknir og yfirheyrðir í tengslum við aðgerðirnar en lagt var hald á bæði kannabisplöntur og græðlinga auk ýmiss búnaðar sem fylgir slíkri starfsemi. Á einum staðnum var einnig lagt hald á töluvert af peningum sem grunur leikur á að séu tilkomnir vegna fíkniefnasölu. Á sunnudag var einnig framkvæmd húsleit í Hafnarfirði og þá fundust nokkrir tugir gramma af marijúana. Sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.

HR settur í dag - 1300 nýnemar

Háskólinn í Reykjavík var settur í dag þegar tekið var á móti nýnemum skólans. Að þessu sinni hefja um 1300 nemendur nám við Háskólann í Reykjavík. Flestir hefja nám við tækni- og verkfræðideild eða um 400. Tæplega 300 nemendur hefja nám við tölvunarfræðideild og viðskiptadeild og rúmlega 150 nemendur hefja nám við lagadeild. Þá er að geta þess að tæplega 170 nemendur hefja frumgreinanám við skólann á þessu hausti, sem er gríðarleg aukning frá fyrri árum

Sjónvarp drepur

Áströlsk rannsókn hefur leitt í ljós að sjónvarpsgláp styttir líf fólks. Rannsóknin var birt í British Journal of Sports Medicine. Niðurstaðan var að hver klukkutími af áhorfi eftir 25 ára aldur kostar fólk 22 mínútur af lífi.

Átökin í Líbíu - fundir með báðum aðilum

Sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna í Líbíu tilkynnti í dag að hann muni eiga fund með hvorum tveggja, fulltrúum uppreisnarmanna og liðsmönnum Gaddafi. Fundirnir fela ekki í sér sáttarviðræður, enda fara þeir fram með hvorum aðilanum fyrir sig.

Erfitt að tilkynna vini og nágranna fyrir illa meðferð á dýrum

Algengast er að tilkynningar um slæma meðferð á dýrum varði fólk sem á við félagsleg vandamál að etja. Dæmi eru um að fólk berji og sparki í gæludýrin sín, jafnvel í þeirri trú að það sé að þjálfa þau. Margrét Björk Sigurðardóttir frá Dýraverndunarsambandinu var gestur þáttarins Í bítið í morgun þar sem hún ræddi um slæma meðferð á dýrum. „Þetta er náttúrulega falið vandamál, af því að, eins og hjá gæludýrunum, þá er þetta inni á heimilum fólks, þetta eru oft nágrannar og vinir, þetta eru viðkvæm mál og það er erfitt að taka á þessum málum og maðurl veit að fólk er feimið við að láta vita," segir hún. Ein birtingarmynd sslæmrar meðferðar er vanræksla en tilkynnt hefur verið um fólk sem skilur hundana sína eftir eina í lengri tíma, jafnvel heilu helgarnar á meðan eigendurnir fara í utanlandsferð. Alvarlegustu tilvikin þegar kemur að illri meðferð, vanrækslu dýra og ofbeldi, varða fólk sem vegna eigin vandamála er óhæft til að sjá um dýr. „Það sem er algengast, því miður, er þar sem við sjáum að það eru jafnvel önnur félagsleg vandamál, og þar er ástandið oft verst, og þar skiptir rosalega miklu máli að grípa inn í því það getur verið ljóst að fólkið hefur ekki burði til að gera það sjálft," segir Margrét Björk. Dýraverndunarsambandið fær minnst eina tilkynningu á viku um mjög slæma meðferð á dýrum. Úrræði yfirvalda til að grípa inn í eru af skornum skammti. „Þau hafa samt úrræði í lögum að þau geta farið inn og þau mega taka dýr, þau mega svipta fólk heimild til að halda dýr, en ég veit ekki til þess að þessu hafi nokkurn tíman verið beitt," segir hún. Margrét Björk segir allt of fá mál fara alla leið fyrir dómstólum. „Og dómar hafa yfirleitt verið vægir og dómarar hafa til dæmis aldrei svipt manneskju leyfi til að halda dýr, jafnvel þrátt fyrir ítrekuð brot," segir hún.

Símahleranir - Murdoch-feðgar í vandræðalegri stöðu

Feðgarnir og fjölmiðlabarónarnir James og Rupert Murdoch standa nú í meiriháttar veseni. Hjá Ofcom, sem er nokkurs konar útvarpsréttarnefnd Bretlands, stendur yfir rannsókn á því hvort þeir séu enn hæfir til að reka fjölmiðil. Þá vex einnig þrýstingur á James að segja af sér sem formaður SKY. Þingmaðurinn Tom Watson kallaði málið „stærstu yfirhylmingu sem hann hefði séð á ævinni".

Sjá næstu 50 fréttir