Fleiri fréttir

Varað við gaskútaþjófum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar fólk við gaskútaþjófum sem hafa verið víða á ferð að undanförnu. Því ættu gaskútaeigendur að gera ráðstafanir ef þeir mögulega geta, ekki síst þeir sem eru með gaskúta á fellihýsum sínum. Fjórum gaskútum var stolið í Reykjavík og Kópavogi á föstudag og laugardag að því er fram kemur í tilkynningu.

Heimili og skóli: Verkfall mun hafa lamandi áhrif

Landssamtök foreldra, Heimili og skóli, segjast í yfirlýsingu hafa miklar áhyggjur af yfirvofandi verkfalli leiksskólakennara. „Slíkt verkfall mun hafa mjög slæmar afleiðingar fyrir leikskólabörn og foreldra í landinu og lamandi áhrif fyrir samfélagið í heild,“ segir í yfirlýsingunni. Þá hvetja samtökin samningsaðila til að komast að samkomulagi sem fyrst. „Mikilvægt er að í leikskólum landsins starfi metnaðarfullt fagfólk því þar fer fram mikilvægt starf þar sem grunnur er lagður að þroska og menntun barna.“

Sextán ára grunaður um morð

Lögreglan í Bretlandi hefur ákært sextán ára dreng fyrir morð sem átti sér stað í óeirðunum í London.

Assad herðir atlöguna gegn uppreisnarmönnum

Forseti Sýrlands, Bashar Assad, hefur uppá síðkastið hert vígbúnað sinn til muna. Það er tilraun til að kæfa uppreisnina sem þar geisar. Ástæðan er að nú stendur yfir hinn heilagi mánuður múslima, Ramadan. Yfirvöld ætla sér að bæla niður uppreisnarmenn svo halda megin Ramadan heilagan þar í landi.

Gríðarleg flóð í Noregi

Gríðarleg flóð brustu á í suðurhluta Noregs í morgun eftir miklar rigningar og leysingar á stórum svæðum. Verst hefur ástandið verið í Syðri-Þrændalögum og hefur fjöldi fólks neyðst til þess að yfirgefa heimili sín og sumarhús. Loka þurfti hraðbraut nálægt Strandlykka eftir að aurskriða féll á veginn í gær en skriðan fór einnig yfir lestarteina sem tengja Þrándheim og Osló.

Stöðvaður fyrir fíkniefnaakstur

Lögreglan á Akranesi stöðvaði för ökumanns á Akrafjallsvegi í liðinni viku þegar grunur vaknaði um að hann væri undir áhrifum fíkniefna. Ökumaðurinn var færður á lögreglustöð og bráðabirgðaprófanir gáfu til kynna að hann hafi neytt amfetamíns og kannabisefna. Þá var tekin blóðprufa og send í rannsókn, til að staðfesta fíkniefnaneyslu. Lögreglan í umdæminu stöðvaði sex ökumenn í vikunni eftir að þeir mældust á of miklum hraða. Sá sem hraðast ók keyrði eftir Vesturlandsveginum á 136 kílómetra hraða.

Stálu fartölvum, leikjatölvu og hálsmeni

Brotist var inn í íbúðarhúsnæði á Akranesi í liðinni viku á meðan heimilisfólkið var á ferðalagi. Þjófarnir spenntu upp glugga og fóru þar inn. Tveimur fartölvum var stolið, leikjatölvu og hálsmeni, auk þess sem rótað var í flestum hirslum. Málið er í rannsókn.

Óttast brottfall úr stéttinni náist ekki samningar

Haraldur F. Gíslason formaður félags leiksskólakennara segist óttast mikið brottfall úr stéttinni, verði kröfum þeirra ekki mætt, en þeir krefjast þess að fá sambærileg laun og aðrar stéttir með sömu menntun. Þetta kom fram í viðtali við Harald í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Skilja hundinn eftir einan heila helgi

Dýraverndunarsamband Íslands fær að lágmarki eina tilkynningu á viku um slæma meðferð á dýrum. Margrét Björk Sigurðardóttir frá Dýraverndunarsambandinu segir algengast að þeir sem fari illa með dýr eigi við önnur félagsleg vandamál að etja. „Þá erum við jafnvel að sjá mjög slæma vanhirðu á dýrunum, mjög slæma líkamlega meðferð," sagði Margrét Björk í þættinum Í bítið í morgun. Dæmi eru um að fólk berji dýrin sín og sparki í þau. Þá sagði Margrét Björk að dæmi væru um að fólk skildi gæludýr eftir ein lengi og að þetta væri sérstakt vandamál þegar kæmi að hundahaldi. „Fólk jafnvel telur í lagi að skilja þá eftir heilu helgarnar, skreppa jafnvel erlendis og skilja hundinn eftir," segir hún. Hægt er að hlusta á viðtal við Margréti Björk um dýravernd með því að smella á tengilinn hér að ofan. Hægt er að tilkynna illa meðferð á dýrum með því að hafa samband við Dýraverndunarsambandið, við Umhverfisstofnun ef um er að ræða gæludýr, við Matvælastofnun ef um er að ræða búfé, eða hreinlega við lögregluna

Þurfa á milli 30 og 50 sjálfboðaliða

Stígamót eru nú að setja á laggirnar nýtt námskeið fyrir sjálfboðaliða sem munu starfa í nýju athvarfi fyrir þolendur vændis og mansals. Athvarfið verður opnað í byrjun september. Sjálfboðaliðar munu starfa við viðveru og þátttöku í daglegu lífi athvarfsins og telur Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, að samtökin þurfi á milli 30 og 50 konur til starfa.

Segja sleggjudóma ríkja um innflutning

Neytendasamtökin hafa krafist þess að tollar á innfluttar kjötvörur verði afnumdir eða í það minnsta lækkaðir. Bregðast verði við fregnum af kjötskorti í landinu.

Milljóna bótakrafa á fangelsisstjórann

Mál Geirmundar Vilhjálmssonar, fyrrverandi forstöðumanns fangelsisins á Kvíabryggju, var sent til ríkissaksóknara fyrir helgi. Ríkislögmaður hefur lagt fram bótakröfu í málinu á hendur honum. Hún nemur um það bil tveimur milljónum króna, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins. Krafan er tilkomin vegna tjóns sem talið er ljóst að ríkissjóður hafi orðið fyrir.

Tína 800 epli af einu eplatré á Akranesi

Fulltrúar frá Hvatafélaginu Á-vexti eru um þessar mundir að reyna að sannfæra landann um að hægt sé að rækta ávexti eins og epli með góðu móti hér á landi. Þá kemur sér vel að geta bent á Ingibjörgu Eygló Jónsdóttur frá Akranesi en hún er með 35 ára gamalt eplatré í garðinum hjá sér og uppskar 800 epli í fyrra af þessu eina tré.

Áfram spáð úrhelli í Danmörku

Ekkert lát er á úrkomunni í Danmörku og nú spáir veðurstofa lands því að von sé á nýju úrhelli í landinu undir lok þessarar viku. Mikið úrhelli í fyrrinótt olli því að samgöngur fóru víða úr skorðum á Sjálandi og á Fjóni.

Leikskólar í Reykjavík munu skerða þjónustu

Leikskólum Reykjavíkurborgar verður ekki lokað þó að leikskólakennarar sem eru í Félagi leikskólakennara (FL) fari í verkfall næsta mánudag, segir Ragnhildur Erla Bjarnadóttir, sviðsstjóri leikskólasviðs borgarinnar. Öllum leikskólum á vegum Akureyrarbæjar mun hins vegar verða lokað.

Sýndu snarræði og slökktu eld

Starfsmenn Vélsmiðjunnar Héðins í Hafnarfirði sýndu snarræði í gær þegar kviknaði í magnesíumkari í smiðjunni. Magnesíumsag logaði skært, en hvorki vatn né froða dugar til að slökkva eld í efninu.

Í anda stefnu flokksins að klára viðræður

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti því yfir á sunnudag að draga beri aðildarumsókn Íslands að ESB tafarlaust til baka. Þótt Bjarni hafi áður lýst þessari skoðun hafa orð Bjarna verið talin afdráttarlausari en fyrri yfirlýsingar hans um málið. Benedikt Jóhannesson, formaður Sjálfstæðra Evrópumanna, segir það óráð að draga umsóknina til baka.

Vinstri flokkar yfir í könnunum

Stjórnarandstöðuflokkarnir á danska þinginu halda forskoti sínu í skoðanakönnunum. Nýjustu tölur sýna að vinstri flokkarnir hafa tæplega 54 prósenta fylgi, sem myndi skila þeim 95 þingsætum, gegn 45,8 prósentum og 80 þingsætum hjá hægriflokkunum sem hafa stýrt landinu í tíu ár.

Stígandi í sölu nýrra bíla

Fyrstu sjö mánuði þessa árs voru skráðir 3.500 nýir fólksbílar á Íslandi. Þar af voru 2.145 bílaleigubílar, samkvæmt upplýsingum frá Bílgreinasambandinu. Einstaklingar hafa þess vegna keypt 1.355 nýja fólksbíla á tímabilinu.

Þarf að sigrast á félagslegum vandamálum

„Þetta hefur orðið til þess að vekja okkur upp hér í landi. Félagsleg vandamál sem hafa grafið um sig áratugum saman hafa nú sprungið framan í okkur,“ sagði David Cameron, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins.

Talin látin eftir fall í Niagara fossana

Nítján ára gömul japönsk stúlka féll í nótt í hina heimsfrægu Niagara fossa, sem standa á landamærum Bandaríkjanna og Kanada. Leit að líki stúlkunnar hefur ekki enn borið árangur, en hún er nú talin látin.

Smár skjálfti fannst greinilega í Hveragerði

Skjálfti sem mældist 1,8 á richterskalanum varð 1,5 km austur af Hrómundartindi rétt fyrir klukkan hálf tíu í kvöld, og fannst hann greinilega í Hveragerði að sögn heimamanna.

Íslensk börn hreyfa sig of lítið

Níu ára íslensk börn hreyfa sig of lítið og þrek þeirra fer versnandi ef marka má niðurstöður nýrrar doktorsritgerðar í íþrótta- og lýðheilsufræði.

Fjöldi fólks minntist Eyþórs Darra

Pilturinn sem lést eftir bílslys á Geirsgötu á föstudagskvöld hét Eyþór Darri Róbertsson. Fjöldi fólks minntist hans á slysstaðnum í gærkvöld.

Segir umræðu um kjötskort ýkjukennda

Forstjóri Slátursfélags Suðurlands, sem er einn stærsti sláturleyfishafinn á kjötkmarkaði, telur að um 300 tonn af lambakjöti séu til í landinu. Hann segir umræðu um kjötskort ýkjukennda.

Setja um 130 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu á leigumarkað

Íbúðalánasjóður ætlar að setja um eitt hundrað og þrjátíu íbúðir á höfuðborgarsvæðinu á leigumarkað á næstu tólf mánuðum til að mæta mikilli eftirspurn. Velferðarráðherra telur að þetta skref geti haft góð áhrif á leigumarkaðinn.

Leikskólakennarar fara fram á 30 þúsund krónur

Launaleiðréttingin sem leikskólakennarar krefjast í yfirstandandi kjaraviðræðum er um þrjátíu þúsund krónur. Stéttin er klár í verkfall ef samningar nást ekki fyrir næsta mánudag.

Úrskurðaður í þriggja vikna síbrotagæslu eftir ránstilraun

Maður um tvítugt hefur verið úrskurðaður í þriggja vikna síbrotagæslu að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hann var handekinn fyrir tilraun til vopnaðs ráns, en samkvæmt fréttatilkynningu hefur hann oft komið við sögu hjá lögreglu.

Grjóti kastað í Benz - vitni óskast

Grjóti var kastað í Mercedes Benz bifreið þar sem hún stóð við Fljótsmörk 6 í Hveragerði aðfaranótt laugardagsins 13. ágúst. Þá voru spjöll unnin á bifreið, gröfu og fleiru á athafnasvæði gróðrastöðvar við Reykjamörk en þar hefur grafa verið gangsett og notuð til að velta um gömlum bíl sem þar var geymdur. Lögreglan óskar eftir því að þeir sem búa yfir vitneskju um hver hafi valdið þessu tjóni geri lögreglu viðvart.

Hollráð fyrir foreldra í skólabyrjun

Lögreglan beinir því til foreldra að leiðbeina börnum sínum um hentugar leiðir til og frá skóka, og fylgja þeim yngstu á meðan þau læra á leiðina og þær hættur sem þar kunna að leynast.

Brotist inn í skrifstofugám

Brotist var inn í skrifstofugám frá Grímsnes- og Grafningshreppi þar sem hann var staðsettur við gámasvæði við Seyðishóla um liðna helgi. Litlu mun hafa verið stolið en tjón er á munum og óskar lögreglan eftir upplýsingum um mannaferðir við gámasvæðið hafi einhver tekið eftir einhverju óvenjulegu þar.

Átta stútar - fjórir þeirra án ökuréttinda

Átta ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í Reykjavík um helgina. Fjórir þeirra voru stöðvaðir á laugardag, þrír á sunnudag og einn aðfaranótt mánudags. Þetta voru fimm karlar á aldrinum 16-49 ára og þrjár konur, 20-40 ára. Þrír þessara ökumanna höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi og einn hefur aldrei öðlast ökuréttindi.

Tólf dópaðir undir stýri

Um helgina voru tólf ökumenn teknir á höfuðborgarsvæðinu fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. Níu þeirra voru stöðvaðir í Reykjavík og þrír í Hafnarfirði. Tveir voru teknir á föstudagskvöld, sex á laugardag og fjórir á sunnudag. Þetta voru níu karlar á aldrinum 20-42 ára og þrjár konur á þrítugsaldri. Sjö þessara ökumanna höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi.

Erill á Selfossi

Í liðinni viku voru 7 ökumenn eða farþegar kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti bifreiðar sinnar í umdæmi lögreglunnar á Selfossi. 26 voru kærðir fyrir að aka of hratt og voru flestir þeirra á ferð á Suðurlandsvegi og á Biskupstungnabraut, meðal annars innan þeirra marka við þéttbýlið á Borg þar sem leyfður hámarkshraði er 70 km/klst Mælingar á Þingvallavegi, á Mosfellsheiði og á nýjum vegi yfir Lyngdalsheiði hafa ekki gefið til kynna að þar sé mikið um hraðakstur en lögð hefur verið áhersla á hraðamælingar á þessum vegum liðnar vikur og verður svo áfram. Árekstur varð á gatnamótum Engjavegar og Tryggvagötu þann 10. ágúst. Þar rákust saman tveir fólksbílar og slasaðist ökumaður annars þeirra lítillega. Þá varð árekstur tveggja bifreiða við gatnamót Eyrabakkavegar og Valsheiðar þann 11. ágúst. Þar rákust saman tveir bílar, báðir með kerru og varð af tölvert eignatjón auk þess sem farþegi í öðrum bílnum kenndi eymsla í brjósti. Þriðji áreksturinn varð á gatnamótum Biskupstungnabrautar og Skeiða - og Hrunamannavegar skammt ofan við Geysi þegar ökumaður sem ók suður Biskupstungnabraut beygði til vinstri inn á Skeiða- og Hrunamannaveg í veg fyrir bifreið sem ekið var norður Biskupstungnabraut. Tveir voru í hvorum bíl og þurftu allir á læknisaðstoð að halda eftir óhappið en áreksturinn var harður. Þá varð óhapp á Austurvegi á Selfossi þegar bifreið var snúið við á akbrautinni (tók U beygju) í veg fyrir ökumann á vespu sem ekið var austur Austurveginn. Ökumaður vespunnar hlaut brunasár af útblástursröri hjólsins en slapp ómeiddur að öðru leiti.

Telur heimildir ráðherra kunna að brjóta í bága við stjórnarskrána

Umboðsmaður Alþingis tekur ekki afstöðu til kvörtunar Samtaka verslunar og þjónustu vegna meðferðar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins á úthlutunum tollkvóta til innflutnings á landbúnaðarvörum. Ástæða þessa er að hann telur að þær heimildir sem ráðherra eru veittar af Alþingi kunni að brjóta í bága við stjórnarskrána. Umboðsmaður Alþingis beinir því til ráðuneytisins, og eftir atvikum fjármálaráðherra, að bregðast við þeirri niðurstöðu að viðkomandi ákvæði tollalaga um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvara séu ekki í samræmi við stjórnarskrána. Þá hefur umboðsmaður ákveðið að tilkynna Alþingi um málið. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið birti hins vegar tilkynningu á vef sínum í morgun um þetta álit umboðsmanns Alþingis. Þar segir orðrétt: "Í áliti sínu staðfestir umboðsmaður að framkvæmd ráðherra er í samræmi við sett lög en tilefni álitsgerðarinnar er einmitt kæra Samtaka verslunar og þjónustu þar sem því er haldið fram að ráðuneytið hefði í reglugerðum farið út fyrir valdheimildir tollalaga nr. 88/2005.“

Vagnstjórar Strætó sigruðu í ökuleikni

Strætisvagnabílstjórar Strætó bs. sigruðu á Norðurlandamóti í ökuleikni vagnstjóra, sem haldið var í Stokkhólmi í Svíþjóð nýlega. Í tilkynningu frá Strætó segir að Svíar hafi verið í öðru sæti og Finnar í því þriðja, en þeir sigruðu á þessu móti í fyrra.

Umferðaröngþveiti í London vegna prufumóts

Endurskoðun mun fara fram á leiðinni sem farin verður þegar keppt verður í hjólreiðum á Ólympíuleikunum í Lundúnum eftir rétt tæpt ár. Ástæðan er sú að gríðarlegt umferðaröngþveiti myndaðist í borginni í gær þegar leiðin var prófuð í gær. Loka þurfti rúmlega þúsund götum og hafa margir áhyggjur af því hvað gerist þegar á sjálfa Ólympíuleikana er komið, en þá mun keppnin taka heila fimm daga.

Magnesíum brann í Vélsmiðjunni Héðni

Eldur kom upp í vélsmiðjunni Héðni við Gjáhellu í Hafnarfirði í dag. Gríðarlegur reykur steig upp af húsinu enda hafði kviknað í kari fullu af magnesíum, sem er gríðarlega eldfimt efni.

Leiguhúsnæði verði fjórðungur íbúða í nýjum hverfum

Í nýjum hverfum miðsvæðis í Reykjavík verður gert ráð fyrir að leiguhúsnæði verði minnst fjórðungur íbúðarhúsnæðis, nái tillögur vinnuhóps um mótun húsnæðisstefnu borgarinnar til ársins 2020 fram að ganga. Umrædd hverfi eru til að mynda í Vatnsmýri, við Mýrargötu og við Hlemm. Vinnuhópurinn skilaði af sér tillögum til borgarráðs í byrjun júlí og eru þær í umsagnarferli til vikuloka. Helsta markmiðið með tillögunum er að tryggja öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði fyrir alla borgarbúa. Þá er þar sérstaklega fjallað um hlutfall leiguhúsnæðis í hverfum borgarinnar. Sem stendur er hlutfall leiguíbúða talið vera vel undir 20% af öllu íbúðarhúsnæði í borginni, en stefna á að því að það verði fjórðungur. Þá er í tillögunum kveðið á um að við skipulag íbúðahverfa skuli tryggt að fimmtungur íbúða, hið minnsta,. miðist við þarfir tekjuminni hópa.

Sjá næstu 50 fréttir