Fótbolti

Lazio og Fiorentina áfram í A-deild - AC Milan í meistaradeild

Juventus verður áfram í B-deildinni, en ekki verða jafn mörg stig dregin af liðinu og upphaflega stóð til
Juventus verður áfram í B-deildinni, en ekki verða jafn mörg stig dregin af liðinu og upphaflega stóð til

Lazio og Fiorentina halda sæti sínu í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu, en Juventus verður áfram í B-deildinni. Þetta var úrskurður áfrýjunardómstóls á Ítalíu sem tilkynnti þessa niðurstöðu í kvöld. Juventus fær þó örlítið mildari refsingu en á dögunum, því dregin verða 17 stig af liðinu í upphafi leiktíðar í stað 30. Stig verða einnig dregin af Lazio og Fiorentina í A-deildinni.

Lazio byrjar leiktíðina með 11 stig í mínus og Fiorentina hefur leik með 19 stig í mínus. AC Milan, fjórða liðið sem viðriðið var málið, fær stigafrádrátt sinn minnkaðan úr 15 stigum í 8 og það sem meira er - endurheimtir liðið sæti sitt í meistaradeild Evrópu.

Juventus og Fiorentina þurfa að spila fyrstu þrjá heimaleiki sína á næstu leiktíð fyrir luktum dyrum, Lazio fyrstu tvo og AC Milan fyrsta leik sinn. Ákvörðunin um að svipta Juventus tveimur síðustu meistaratitlum sínum stendur og hafa forráðamenn félagsins gefið það út að þeir muni áfrýja þessari nýjustu niðurstöðu enn frekar.

Það er því ljóst að Inter Milan, Roma, Chievo og AC Milan verða fulltrúar Ítala í meistaradeildinni á næstu leiktíð og lið Palermo, Livorno og Parma taka þátt í Evrópukeppni félagsliða. 

Segja má að Lecce og Treviso séu þau lið sem tapa mest á niðurstöðu áfrýjunardómstólsins í kvöld. Þessi lið enduðu í tveimur neðstu sætum A-deildarinnar í vor og áttu að fá sæti Fiorentina og Lazio. Þriðja neðsta liðið í vor, Messina, heldur því sæti sínu í A-deildinni, þrátt fyrir að hafa í raun fallið í vor, en liðið tekur sæti Juventus. Það er þó enn ekki öruggt í ljósi þess að Juventus hefur ekki sagt sitt síðasta í málinu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×