Körfubolti

Rússar og Spánverjar leika til úrslita á EM í körfu

Andrei Kirilenko fór fyrir Rússum í sigrinum gegn Litháum í kvöld
Andrei Kirilenko fór fyrir Rússum í sigrinum gegn Litháum í kvöld AFP

Það verða Rússar og Spánverjar sem leika til úrslita á Evrópumóti landsliða í körfubolta. Þetta varð ljóst í kvöld eftir að Rússar unnu glæstan sigur á Litháum í undanúrslitum 86-74. Rússarnir höfðu yfirhöndina frá fyrstu mínútu leiksins og leika nú til úrslita á Evrópumóti í fyrsta sinn síðan árið 1993.

Andrei Kirilenko fór fyrir spútnikliði Rússa í kvöld eins og svo oft áður, en hann skoraði 29 stig. Rússarnir hittu úr 54% skota sinna í leiknum og náðu mest 19 stiga forystu, sem Litháarnir náðu reyndar einu sinni að vinna upp en Rússar héldu haus í lokin. Ramunas Siskauskas fór á kostum í liði Litháa og skoraði 30 stig, en fékk litla hjálp frá félögum sínum að þessu sinni. Þetta var fyrsta tap Litháa á mótinu á Spáni en úrslitaleikur heimamanna og Rússa fer fram á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×