Körfubolti

Hrannar Hólm valinn þjálfari ársins í Danmörku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Hrannar Hólm var á dögunum valinn besti þjálfarinn í dönsku kvennadeildinni í körfubolta en hann hefur gert frábæra hluti með SISU-liðið síðan hann tók við liðinu á miðju tímabili. Karfan.is segir frá þessu í dag.

Hrannar tók við liðinu þegar þjálfari þessa var látinn fara og liðið var í 8. sæti af 9. liðum í deildinni. Hrannar vann 9 af næstu 11 leikjum og kom liðinu upp í efri hlutann og alla leið í undanúrslit úrslitakeppninnar. Það voru allir þjálfarar deildarinnar sem kusu Hrannar besta þjálfarann.

Hrannar fór yfir hvernig þetta allt kom til í viðtali á Karfan.is.

„Það var nú þannig að við fjölskyldan fluttum til Danmerkur s.l. sumar og fljótlega fór dóttir mín (Helena Brynja Hólm) að æfa með SISU. Tímabilið hófst og það gekk frekar illa og óánægja var með margt. Þannig fór að þjálfarinn var látinn fara og var liðið þá í 8. sæti af 9 liðum í úrvalsdeildinni (Dameligaen).































Í kjölfarið hafði formaður félagsins samband við mig, þar sem hann hafði frétt af því að ég væri gamall körfuhundur og spurði hvort ég væri til í að aðstoða og ég ákvað að gera það, bæði var dóttir mín í liðinu og svo var ég með aðstoðarmann sem átti að taka æfingar fyrir mig þegar ég kæmist ekki sökum vinnu.

Í raun hafði ég ekki mikinn tíma í þjálfunina en sló samt til af því að það er jú gaman í körfu og ég hafði ekki þjálfað í háa herrans tíð :) En síðan flutti Helena Brynja til Íslands (og lék í vetur með Haukum) og aðstoðarmaðurinn veiktist þannig að ég sat einn uppi með liðið - ef svo má segja," sagði Hrannar í viðtali við Karfan.is.

SISU-liðið komst síðan í gegnum sex liða úrslit úrslitakeppninnar og inn í undanúrslitin á móti Aabyhøj þar sem liðið datt út eftir oddaleik. SISU endaði í 4. sæti eftir tap á móti Amager um síðustu helgi.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×