Körfubolti

Heimsmeistararnir úr leik og heimamenn áfram ósigraðir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Milos Teodosic fagnar sigurkörfu sinni.
Milos Teodosic fagnar sigurkörfu sinni. Mynd/AP
Tyrkir og Serbar tryggðu sér í gær sæti í undanúrslitunum á HM í körfubolta, Tyrkir með öruggum og sannfærandi sigri á Slóvenum en Serbar eftir æsispennandi leik á móti fráfarandi heimsmeisturum Spánverja.

Heimsmeistarar Spánverjar eru leik eftir dramatískan lokakafla í 89-92 tapi á móti Serbum þar sem að Milos Teodosic skoraði sigurkörfu Serbíu, langt fyrir utan þriggja stiga línuna, þegar aðeins 3,1 sekúnda var eftir.

Serbar voru með átta stiga forustu þegar fjórar mínútur voru eftir en Spánverjar náðu að vinna það forskot upp á lokamínútunum. Teodosic tók síðan skotið af mjög löngu færi þrátt fyrir, að hafa aðeins hitt úr 1 af 7 þriggja stiga skotum sínum, fyrr í leiknum.

Marko Keselj og Novica Velickovic skoruðu mest 17 stig fyrir Serba sem hittu úr 15 af 30 þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Juan Carlos Navarro skoraði 27 stig fyrir Spán.

Tyrkir héldu sigurgöngu sinni áfram á heimavelli og eru komnir í fyrsta sinn í sögunni í undanúrslit á HM eða Ólympíuleikum. Tyrkir unnu 95-68 sigur á Slóvenum og hafa unnið alla sjö leiki sína í keppninni til þessa.

Ersan Ilyasova skoraði 19 stig fyrir tyrkneska liðið sem hitti úr 10 af 17 þriggja stiga skotum sínum þar af 8 af 11 í fyrri hálfleik þar sem þeir voru búnir að ná 50-31 forustu.

Tyrkir hafa unnið tvo leiki sína í útsláttarkeppnini með samtals 45 stigum, unnu fyrst Frakka 95-77 í 16 liða úrslitum og svo Slóvena með 27 stiga mun í gær. Tyrkland og Serbía mætast í undanúrslitaleiknum sem fram fer á laugardaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×