Körfubolti

Helena fann sig vel í bleika búningnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir sést hér í bleika búningnum um helgina.
Helena Sverrisdóttir sést hér í bleika búningnum um helgina. Mynd/AP

Helena Sverrisdóttir og félagar í TCU unnu flottan 78-59 sigur á Wyoming í bandaríska háskólakörfuboltanum um helgina. Helena átti mjög góðan dag og væri bæði stigahæst og stoðsendingahæst í liðinu þrátt fyrir að spila bara í 28 mínútur.

TCU-liðið lék í sérstökum bleikum búningum til þess að vekja athygli á brjóstakrabbameini en þetta var sérstakur "Pink Zone"-leikur liðsins. Helena fann sig greinilega vel í bleiku og steig varla feilspor á vellinum.

Helena skoraði 19 stig, gaf 6 stoðsendingar, tók 5 fráköst og stal 2 boltum. Hún hitti úr 7 af 10 skotum sínum, öllum þremur vítunum og tapaði ekki einum einasta bolta í leiknum. Þetta var í tíunda sinn í vetur sem hún gefur 6 stoðsendingar eða meira í leik.

Helena var með 12 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar í fyrri hálfleiknum sem TCU vann 41-26.

Þetta var 20. heimasigur TCU í röð í Daniel-Meyer Coliseum og settu TCU-stelpurnar með því nýtt skólamet. TCU er nú búið að vinna 19 af 24 leikjum tímabilsins og er íefsta sæti Mountain West deildinni með 9 sigra í 11 leikjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×